Hvatningarstyrkir Vísindasjóðs LSH
Ágætu gestir
Það er mér ánægja að vera hér á Landspítalanum í dag af þessu tvöfalda tilefni, afhending styrkja Vísindasjóðs spítalans til öflugra rannsóknahópa sem og undirritun samstarfssamnings milli Háskóla Íslands og Landspítala um kennslu og rannsóknir
Það er ávallt ánægjulegt að koma á Landspítala og sjá hversu öflugt vísindastarf fer fram innan sjúkrahússins. Þrátt fyrir efnahagshrunið, sem kallaði á forgangsröðun á öllum opinberum útgjöldum og niðurskurð þ.m.t. til heilbrigðismála, ákveður yfirstjórn spítalans að uppfylla hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss og halda áfram að samtvinna þjónustu við sjúklinga við ekki einungis kennslu, heldur einnig rannsóknir og vísindastörf. Þetta leggur Landspítali áherslu á þrátt fyrir aðstöðuleysi og skort á innviðum til rannsóknanna.
Hér á landi eru stundaðar öflugar rannsóknir á sífellt fleiri sviðum, rannsóknir sem standast alþjóðasamanburð. Íslenskir vísindamenn í heilbrigðisvísindum standa framarlega á alþjóðavísu í ritrýndum birtingum og hafa gert um árabil. Háskóli Íslands hefur nú náð þeim mikilsverða árangri að vera meðal 300 fremstu háskóla í heimi. Vísindaafrek í heilbrigðisvísindum hafa skipt og munu halda áfram að skipta miklu máli þegar gæði háskóla á heimsvísu eru metin. Starfsemi Landspítala og Háskóla Íslands er nefnilega samofin. Samstarfssamningur milli þessara tveggja stofnana er lykilgrundvöllur þess að tryggja samvinnu og samþættingu til að nýta megi þann mannauð og tækjakost sem við búum yfir sem allra best.
Í frumvarpi til fjárlaga 2013 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er fylgt eftir stefnu Vísinda– og tækniráðs að efla rannsóknasjóði og treysta á samkeppni til að styrkja þau rannsóknaverkefni sem bera af í gæðum. Nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga munu framlög til helstu rannsóknasjóða ríkisins hækka verulega í samræmi við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar 2013-2015, sem kynnt var í vor. Hækkunin er veruleg og alls munu 1,3 milljarðar króna renna aukalega í stærstu opinberu rannsóknasjóðina, Rannsóknasjóð, Tækniþróunarsjóð og Markáætlun á sviði vísinda og tækni. Hér tel ég að stigið sé mjög mikilvægt skref til að skapa aukin vaxtarskilyrði í vísindastarfi hér á landi sem muni skila aukinni þekkingu og verðmætasköpun. Hér er fjárfest í vísindum – og viðurkennt að fjárfesting í þeim er ekki síður mikilvæg en aðrar fjárfestingar sem ef til vill er auðveldara að festa hönd á. Þetta er mikilvæg fjárfesting fyrir rannsóknir en ekki síður samfélagið allt sem reiðir sig á þekkingu ykkar og þjónustu.
Ég óska þeim rannsóknahópum sem hér fá viðurkenningu fyrir starf sitt til hamingju og ykkur öllum velfarnaðar í starfi.