Ræða á málþingi um varðveislu og skráningu menningararfsins
31. janúar 2013, Norræna húsið
Ágætu málþingsgestir
Það er mér mikið ánægjuefni að taka til máls hér á málþingi á vegum Gljúfrasteins um menningararfinn og varðveislu og skráningu á honum. Að leiða fram ólíkar raddir um þetta mikilvæga umfjöllunarefni er að mínu mati virðingarvert og áhugavert að skoða afmarkaðan hluta þess, í þessu tilviki fjölbreytta arfleifð Halldórs Laxness, með heildina í huga.
Þegar hugað er að menningararfinum getur reynst ágætlega að grípa til veigamikils þáttar í þeim arfi hér á landi, nefnilega til tungumálsins, og leika sér við að draga upp myndlíkingar. Menningararfinn má þá jafnvel hugsa sér sem einhvers konar hnoðleir sem við notum í sameiningu og mótum til að byggja okkur mynd af sameiginlegri fortíð. Myndina, sem úr verður, sýnum við sjálfum okkur og öðrum og hún nýtist einnig til að meta stöðu okkar í samtímanum. En þessari skúlptúrgerð líkur aldrei og þannig verður til síbreytileg mynd sem fræðimenn á undanförnum árum og áratugum hafa verið duglegir að benda á að sé alltaf nýtilkomin, ávallt í endurmótun í deiglu tímans. Menningararfurinn er þannig síkvik uppfinning og uppgötvun.
Ef við höldum áfram og grípum til annarar líkingar, sem tengist kannski betur umfjöllunarefni og uppleggi þessa málþings, má sjá fyrir sér bók sem er í sífelldri ritstjórnarlegri endurskoðun og umbroti. Nýjir kaflar koma til á hverjum degi oft án þess að við veitum því athygli, á meðan annað gengur í gegnum endurmat og endurskoðun. Um eitt og annað í efnisinnihaldinu erum við sammála en það er ekki víst að við verðum það endilega á morgun eða á næsta ári. Svo er vitanlega flóknara mál að velta fyrir sér hver það er, sem er spurður álits og hvernig eitthvað, sem kalla má álit hópsins, kemur til í þessum efnum.
Gljúfrasteinn, hús skáldsins, sem bíður til þessa málþings í dag, hefur nokkuð óvenjulega hlutverki að gegna þegar litið er yfir flóru menningarstofnanna og menningarverkefna sem hið opinbera stendur að hér á landi. Þar er fyrst og fremst lögð áhersla á arfleifð eins manns. Halldór Laxness er jú vissulega risi í bókmenntum Íslendinga á 20. öld en þegar betur er að gáð má finna áhrifunum víða stað, þræðirnir liggja víða og jafnvel hægt að tala um margfeldisáhrif skáldsins á öðrum sviðum íslenskrar menningar. Það er því einkar forvitnilegt og til eftirbreytni að tilsjónaraðili þessa arfs, Gljúfrasteinn og það fólk sem þar starfar, skuli taka upp samtal við ýmsa þá aðila sem að málinu koma. Slík áhersla á samstarf ólíkra menningarstofnanna er mikilvæg og hentar kannski ekki síður vel í málefnum menningararfsins en hún gerir á sviði frumsköpunar í listum.
Tíminn er mikilvægur þáttur í hugmyndum okkar um menningararfinn. Tímans tönn er bæði beitt og einbeitt og vinnur sín verk í hljóði. Þetta á ekki síst við um þann mikla arf og það gríðarlega magn upplýsinga sem þessi öld og sú síðasta skilja eftir sig. Koma þar inn tæknileg spursmál um tækjakost, afspilun og afritun í frumskógi tæknilegra lausna sem breytast hratt. Þetta nefni ég ekki síst vegna þess að kveikja þessa málþings er sú vinna sem fram fór á sínum tíma vegna hátíðarinnar Laxness í lifandi myndum sem haldið var í vor og leiddi í ljós margt sem eflaust verður nánar rætt hér í dag.
Alla daga erum við að skilja eitthvað eftir okkur og ekki alltaf sem það er skráð á bókfell eins og forðum eða í málaskrár opinberra aðila í nútímanum. Þegar kemur að listum og menningu er ekki hægt að loka augunum fyrir því að á hverjum tíma fer fram einhvers konar mat á því sem til verður og sett er fram í listrænu samhengi. Í samtímanum takast menn á um það hvað skipti máli og hvað ekki. Síðar meir getur komið upp sú staða að grúsk í hinum fjölbreyttu kistlum fortíðar leiði af sér a.m.k. rannsóknir eða endurmat á því sem áður var sett fram en þótti á sinni tíð ekki líklegt til að komast inn í mengi menningararfsins. Þetta þekki ég ágætlega þar sem ég hef kannað íslenskar glæpasögur úr fortíðinni sem verða jú ekki síst spennandi með hliðsjón af glæpasögum samtímans. Annað ágætt dæmi er tónmenningararfur fyrri alda hér á landi sem er í hraðri endurmótun á okkar dögum og svo mætti áfram telja.
Ágætu málþingsgestir.
Þeir sem huga að menningararfinum, rannsaka hann, skrá, varðveita og miðla eru oftar en ekki „grúskgefnir“ eins og Halldór Laxness segir sjálfan sig hafa verið og skrifar Í túninu heima. Þar nefnir hann að „einbirnistilvera og stopull félagsskapur við jafnaldra“ hafi orðið til þess að hann þroskaðist í þá áttina.
Það eru einmitt þeir „grúskgefnu“ sem vinna oftar en ekki þá vinnu að viðhalda, bæta og bjarga og hægja þannig á niðurbroti tímans þegar kemur að menningararfinum. Það er söfnunin og varðveislan sem þar hægir á, en ekki skal heldur gleyma miðluninni sem snýr að því að opna þann heim sem í hirslunum leynist, fræða og bjóða fram til frekari skoðunar, rannsókna og endurvinnslu. Halldór Laxness, líkt og eflaust margir fleiri í þessum sal, var einn af þeim sem nýtti sér efni á hugvitssamlegan hátt úr fórum fortíðar.
Vinna þeirra „grúskgefnu“ er þakkarverð en það einkennir jafnframt starf þeirra að þeir eru oftar en ekki á elleftu stundu. En það einkennir marga sem slíkt stunda að þeir vinna störf sín af ástríðu og einurð, sjá vinnuna í stærra samhengi og eru líka oft færir um að taka upp samstarf sín á milli um vinnuna.
Þó að óþarfi sé að tala ávallt um menningararf þjóðarinnar með ákveðnum greini og í efstastigi og ágætt að tóna aðeins niður þjóðernisorðræðuna sem honum tengist á stundum, er einnig ljóst að það sem við vitum ekki af úr fortíðinni á lítinn möguleika á því að segja okkur eitthvað um okkur sjálf og fortíð okkar. Þess vegna skipta rannsóknir, söfnun, varðveisla og miðlun á íslenskri menningu í sínum fjölbreyttu myndum svo miklu máli.
Takk fyrir og góða skemmtun á málþinginu hér í dag.