Verðlaunahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík
Ágæta samkoma, nýsveinar sem og eldri sveinar og meistarar!
Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn og þessa glæsilegu hátíð, þegar veitt eru verðlaun þeim nýsveinum sem hafa þótt standa sig með mikilli prýði á nýafstöðnum sveinsprófum.
Það er ánægjuefni að Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík skuli vekja athygli á frammistöðu nýsveina á þessari hátíð, sem nú er orðin að árvissum viðburði. Hátíðin getur vonandi orðið til þess að beina sjónum manna að verknámi og þeim tækifærum sem felast í því fyrir ungt fólk að velja sér nám og starfsvettvang þar.
Því miður eru að mínu mati of fáir sem sjá tækifærin á vettvangi starfsnáms; of fáir nemendur innritast á starfsnámsbrautir framhaldsskóla. Þessu þarf að breyta. Ráðuneytið hyggur af þeirri ástæðu á kynningarherferð um starfsnám á næstunni, sem mun beinast að nemendum grunnskóla og foreldrum þeirra í samstarfi við fulltrúa atvinnulífs og skóla, kennara, nemendur, og náms- og starfsráðgjafa. Fljótlega verður ráðinn verkefnisstjóri til þess að leiða átakið og er það von mín að framtakið geti orðið til þess að bæta ímynd starfsnáms hér á landi og fjölga þeim sem velja sér slíkt nám. En ég tel einnig að athöfn af þessu tagi geti skipt miklu máli sem kynning á iðnmenntun og þeim faglega metnaði sem iðnaðarmenn temja sér í störfum sínum.
Ég hef á fyrri hátíðum Iðnaðarmannafélagsins lagt áherslu á mikilvægi þess að styrkja innviði starfsmenntakerfisins. Fyrirtækin eru hluti af þessu kerfi, þar sem þau taka að sér að annast kennslu nemenda í þeim þáttum, sem best fer á að séu kenndir úti á vinnustöðunum. Fyrr á þessu ári áréttaði löggjafinn mikilvægi þessa þáttar í starfsnáminu með setningu laga um vinnustaðanámssjóð. Sjóðnum er ætlað að styrkja fyrirtæki sem taka nemendur í vinnustaðanám. Sjóðnum hefur nú verið skipuð stjórn, sem mun taka til starfa fljótlega. Stjórnin mun gera tillögu til mín um úthlutunarreglur og getur í framhaldi af því tekið ákvörðanir um úthlutun styrkja á grundvelli þeirra reglna.
Þessu til viðbótar vil ég nefna fyrirhugaða breytingu á lögum um framhaldsskóla, nánar tiltekið við lagagreinina sem fjallar einmitt um vinnustaðanám. Með breytingunni er leitast við að renna stoðum undir störf nemaleyfisnefnda sem ætlað er að vinna að auknum gæðum vinnustaðanáms með aðhaldi og stuðningi við fyrirtæki. Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að vinnustaðanám sé skilgreint í sérstökum námsferilsbókum þannig að það sé alveg ljóst til hvers er ætlast af fyrirtækjunum þegar þau taka við nemendum til kennslu og þjálfunar. Við viljum virkja krafta og kennslugetu fyrirtækja með markvissari hætti en gert hefur verið og leggjum áherslu á að þau gegna mikilvægu hlutverki í menntun starfsmanna sinna. Þarna er mikilvægt að leita breiðs samstarfs við atvinnulífið en einnig við einstaklinga sem vilja láta gott af sér leiða í þessum efnum.
Ég hef á fyrri hátíðum beint því ákalli til ykkar, nýútskrifaðra sveina, bæði karla og kvenna, að þið leggið okkur lið ef eftir því er leitað í framtíðinni við að efla starfsmenntun með því að gefa kost á kröftum ykkar við uppbyggingu hennar í félagsstörfum og í nefndum um starfsnám á vegum hins opinbera. Það ákall er hér með áréttað.
Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn og með hátíðina – og áframhaldandi velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum.