Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Málþing um tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda 22. janúar 2013 í Þjóðminjasafni Íslands

Ágætu málþingsgestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að taka stuttlega til máls á þessu málþingi um tjáningarfreslsi og vernd afhjupenda.
Þann 16. júní 2010 var samþykkt stórhuga þingsályktun á Alþingi þess efnis að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. Samkvæmt þingsályktuninni var mennta- og menningarmálaráðuneyti falið að vinna að framgangi hennar. Í greinargerð með tillögunni er lýst framtíðarsýn fyrir Ísland sem framsæknum vettvangi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Ennfremur kemur þar fram að leitað verði leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hér á landi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.
Það var ljóst strax í upphafi að verkefnið er metnaðarfullt og umfangsmikið þar sem það nær til fjölda ráðuneyta og stofnana þeirra og hefur áhrif víða í samfélaginu og gæti jafnvel gert víðar í veröldinni. Síðastliðið vor var ákveðið að skipaður yrði stýrihópur um verkefnið sem í sitja m.a. sérfræðingar úr mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, fjölmiðlanefnd og frá IMMI-stofnuninni. Ég tel að þarna hafi tekist að mynd öflugan hóp sérfræðinga á sviði tjáningarfrelsis og á sviði tækni og alþjóðlegra skuldbindinga. Í vinnu hópsins verður því reynt að horfa á málið út frá ólíkum hliðum og taka afstöðu til þeirra álitamála er upp koma.
Fjölmiðlar og samskiptamiðlar eru bæði mikilvægir og fyrirferðarmiklir í samtíma okkar. Þeir eru mikilvægir þegar kemur að því að efla lýðræðið í landinu og styrkja stöðu almennings í því að veita stjórnvöldum á hverjum tíma nauðsynlegt aðhald. Þingsályktunin skapar kjörið tækifæri til þess að bæta lagaumgjörð fjölmiðla hér á landi til mikilla muna.
Hér á eftir verður nánar rætt um tjáningarfrelsi og sérstaklega með tilliti til réttarstöðu afhjúpenda í samræmi við þær tillögur sem fram koma í þingsályktuninni. Markmiðið er að draga fram ólík sjónarmið með þátttöku sérfræðinga á þessu sviði og ég hvet ykkur til taka þátt í þeirri umræðu sem hér er að hefjast. Það verður varpað ljósi á þær tillögur sem liggja fyrir í þingsályktuninni, hvert beri að stefna í tengslum við lagasmíð um afhjúpendur á Íslandi og hvernig málum skuli háttað út frá persónuverndarsjónarmiðum í þessum efnum. Fyrirmynd að slíkri löggjöf er að finna í ýmsum nágrannaríkjum Íslands en með slíkri vernd er reynt að vernda réttarstöðu afhjúpenda, hvort heldur hjá hinu opinbera eða í einkageiranum, þegar þeir koma fram með upplýsingar sem eiga erindi til alls almennings.
Hugtakið afhjúpandi er oft notað í neikvæðum tóni, og oft jafnvel notað í sömu andrá og svikari. Inn í þessa umræðu blandast hugmyndir um traust, trúnað, leynd, almannaheill og jafnvel samvisku. – Ekki lítil hugtök og því oft um grafalvarlega málefni að ræða.  Margir vilja halda því fram að uppljóstrari sé að rjúfa skuldbindingu um hollustu sem byggir á trausti eða trúnaði við fyrirtækið eða stofnuninna sem hann er að vinna fyrir. Afhjúpendur gegna hins vegar mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi, því þeir veita stjórnvöldum, fyrirtækjum og fjármálaöflum nauðsynlegt aðhald og koma upp um spillingu eða lögbrot í fyrirtækjum, stofnunum og í stjórnsýslunni.
Eins og það horfir við mér eru þetta einstaklingar sem nýta sér tjáningarfrelsi til að skýra opinberlega frá misbeitingu valds sem bitnar á almenningi. Afhjúpandi lætur til þess bærum yfirvöldum í té upplýsingar sem viðkomandi telur færa óyggjandi sannanir á ólöglegu athæfi eða ógn við almannaheilsu og öryggi. Með þessum hætti má jafnvel segja að þeir noti frelsið til að hindra óþörf stórslys og áður en það verður um seinan. Það er því ljóst að afhjúpendur geta breytt miklu í samfélaginu og um það eru fjölmörg dæmi.
Í hröðum og tæknivæddum heimi getur verið mjög erfitt að koma á framfæri viðkvæmum upplýsingum, þar sem afhjúpendur fá litla sem enga vernd, og því getur verið hætta á að lítill hvati myndist til að upplýsa um meint brot fyrirtækja og stofnanna sem varða almannaheill.
Við stöndum frammi fyrir tilteknum áskorunum hvað þessi mál varðar. Það er eitt hvort afhjúpendur búi yfir upplýsingum sem eigi erindi við almenning og að hafi á réttu að standa. Hvað um þá sjálfa og þá hættu sem þeir geta sett sig í? Hvað verður í raun um þessa einstaklinga? Hver er munurinn að koma fram með viðkvæmar upplýsingar í litlum samfélögum eða stórum? Getur afhjúpandinn komið upplýsingum á framfæri til aðila sem hann getur treyst? Hverjir eru verndarhagsmunirnir og hvernig skal málum háttað út frá persónuverndarsjónarmiðum? Álitamálin er fjölmörg og krefjandi.
Ég tel að hér sé á ferðinni mikilvæg umræða sem á erindi víða í samfélaginu. Það er rétt að ýta undir þessa umræðu og leiða fram ólík viðhorf og sjónarmið. Í þessu sambandi hef ég lagt áherslu á að vinna stýrihópsins sé sýnileg almenningi og má nefna að þingsályktunin var sérstaklega kynnt á heimasíðu ráðuneytisins og almenningi veittur kostur á að senda athugasemdir og ábendingar til stýrihópsins. Þetta málþing er annar liður í þeim sýnileika.
Góðir málþingsgestir. Ég vænti þess að umræða um þessi mál muni leiða til þess að álitaefni í þessu sambandi verði leidd til lykta og að lokum lifum við í opnara og heilbrigðara samfélagi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta