Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Málþing Lionshreyfingarinnar – lestrarátak – barátta gegn ólæsi haldið 12. febrúar 2013

Ágætu gestir

Það er mér mikið ánægjuefni að taka til máls hér á málþingi um aðgerðir gegn ólæsi á vegum Lionshreyfingarinnar á Íslandi.
Hugtakið læsi er víðtækt og það sem í því felst – lestur, ritun, lesskilningur og hæfnin til að geta nýtt sér þessa færni – tekur breytingum.  Þessi færni er einstaklingum ekki meðfædd heldur þarf að læra hana og þjálfa  upp. Læsi á sér ekki stað í tómarúmi og á hverjum tíma reyna kennarar að átta sig á framvindu þess. Nú á dögum er til dæmis oft sagt að samfélög víða um heim séu upplýsingasamfélög eða þekkingarsamfélög og læsi þurfi að taka mið af því.
Læsi er lykillinn að því að við öll getum þroskað þekkingu okkar og hæfileika til að vera gagnrýnir og virkir þegnar í lýðræðisþjóðfélagi. Ólæsi  og ófullnægjandi lestrarkunnátta heftir þannig einstaklinga til virkrar þátttöku í því samfélagi sem við viljum byggja upp. Mikilvægt er að við leitumst sameiginlega við að finna leiðir til að vinna gegn þeim vanda sem af ólæsi sprettur.
Mér er ekki kunnugt um að fyrir liggi nákvæm kortlagning á umfangi ólæsis hér á landi í dag. Því hefur þó verið haldið fram að ekki sé ástæða til að ætla annað en að á Íslandi sé ólæsi svipað og gerist í helstu þeim löndum sem við berum okkur oft saman við.  Þannig mætti gera ráð fyrir að 10-15% fullorðinna hér á landi glími við litla lestrarfærni eða ólæsi. Meðal ákveðinna hópa, svo sem innflytjenda, er í sumum hópum jafnvel enn meira ólæsi, a.m.k. á íslensku.  Á HringÞingi um menntunarmál innflytjenda sem haldið var í september síðastliðinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið var aðili að, var meðal annars rætt um íslenskukennslu fyrir innflytjendur og hvernig unnt sé að bregðast við ólæsi meðal innflytjenda með litla eða enga grunnmenntun. Verið er að vinna að eftirfylgni með niðurstöðum þingsins og mun ráðuneytið leggja áherslu á að standa vel að henni.
Á síðustu áratugum hefur þekking á lestrarerfiðleikum aukist mikið og ýmsar hugmyndir og kenningar komið fram þar sem leitast er við að skýra vandann og benda á leiðir til að leysa hann. Í því samhengi hefur m.a. verið bent á að árangursríkt geti verið að líta ekki eingöngu á lestrarerfiðleika sem vandamál heldur viðfangsefni sem krefst nýrra úrræða í skólum og öðruvísi nálgunar. Jafnframt hafa augu manna beinst að því hvaða afleiðingar það hefur fyrir nemandann að eiga í erfiðleikum með lestur. Takmörkuð lestrarfærni getur haft margvísleg neikvæð áhrif, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið, má ljóst vera að bregðast þarf við með markvissum hætti.
Á undanförnum árum hefur ráðuneytið haft frumkvæði að verkefnum sem miða að því að bæta læsi. Sérstök áhersla hefur verið á lestrarerfiðleika. Sú vinna skilaði t.d. upplýsingum um lestrarkennslu í nokkrum  grunnskólum, lesvef, styrkjum til gerðar lestrar- og lesskimunarprófa, breytingum á samræmdum könnunarprófum, skýrslu um lestrarerfiðleika, stuðningi við Mentor til að byggja upp lestrareiningu, styrkjum til þróunarverkefna úr þróunarsjóðum á vegum ráðuneytisins og styrkjum til námsgagnagerðar. Auk þess var sérstaklega unnið að stefnumótun á þessu sviði við gerð nýrra aðalnámkráa fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem nýlega komu út.
Lesvefurinn.is er eitt af þeim verkefnum sem ráðuneytið hefur staðið að og er sá vefur um læsi og lestrarerfiðleika.  Á vefnum er meðal annars að finna hagnýtar upplýsingar um læsi og lestrarerfiðleika sem byggðar eru á rannsóknum og þekkingu sem safnast hefur á undanförnum þremur til fjórum áratugum. Hlutverk vefsins er að efla þekkingu foreldra, kennara og nemenda á læsi og lestrarerfiðleikum og þeim kennsluaðferðum og úrræðum sem best mæta þörfum allra nemenda. Lestrarnám mun alltaf skipa veigamikinn sess og vera grundvallarforsenda í öllu skólastarfi. Því er nauðsynlegt að kennarar á öllum skólastigum hafi þekkingu á þessum mikilvæga þætti sem hefst með máltöku ungra barna og lýkur ekki fyrr en einstaklingurinn er virkur og gagnrýninn lesandi. Í seinni tíð hefur framsetning texta breyst með nýjum birtingarmáta með ýmsum rafrænum hætti. Myndir af margvíslegu tagi, hreyfing og hljóð samtvinnast við hið talaða og ritaða orð. Þetta þýðir að textahugtakið hefur verið að breytast og það hefur kallað á víðari skilgreiningu á læsishugtakinu.
Með reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla sem gefin var út árið 2010 er að finna áherslu á mikilvægi þess að athuganir og skimanir í forvarnarskyni í skólum séu nýttar til þess að koma til móts við þarfir allra nemenda. Ekki síst á sviði læsis er mikilvægt að sérfræði- og stoðþjónusta skóla vinni í anda snemmtækrar íhlutunar. Því fyrr sem gripið er inn í og leiðir til úrbóta fundnar því meiri líkur eru á að unnt sé að koma í veg fyrir eða draga úr erfiðleikum við lestrarnám og í því sambandi er gott samstarf heimila og skóla mikilvægur þáttur.
Að lokum langar mig að nefna að í nýjum aðalnámskrám leik- grunn- og framhaldsskóla sem komu út 2011 er lögð rík áhersla á mikilvægi læsis í víðum skilningi. Þar segir meðal annars að meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. Námskránum til stuðnings hefur ráðuneytið einnig gefið út svokölluð þemahefti, þ.m.t. þemahefti um læsi.  Þemaheftinu er ætlað að vera skólum og kennurum leiðbeinandi stuðningur og hvatning við innleiðingu nýrra námskráa í því ábyrgðarhlutverki sem það er að mennta framtíð landsins. Mikilvægt er að skólar þrói áherslur sínar áfram í framhaldinu.

Ágætu málþingsgestir
Flest okkar taka læsi sem sjálfsögðum hlut en við vitum þó að orsök ólæsis er ekki ein og lausnin því síður einföld. Úrlausn þess vanda sem af ólæsi hlýst krefst þátttöku fjölda aðila. Þetta viðfangsefni er í raun á ábyrgð alls samfélagsins og allir geta lagt sitt af mörkum. Foreldrar og kennarar hafa afgerandi hlutverk en einnig svo miklu fleiri svo sem fagaðilar á sviði læsis, stjórnvöld og stefnumótandi aðilar.  Þá er mikilvægt að virkja fjölskyldur; foreldra, eldri systkini,  afa og ömmur til að styðja við börnin og til að vera þeim jafnframt góðar fyrirmyndir. Skapa þarf lestrarhvetjandi umhverfi, börn sem alast upp við að sjá hinn fullorðna lesa eru líklegri til fá áhuga á að lesa.
Það er ánægjulegt að félagasamtök á borð við Lions láta sig þennnan mikilvæga málaflokk varða og óska ég félaginu alls hins besta í þeim efnum.
Ég vona að þetta málþing hér í dag reynist árangursríkt innlegg í baráttuna gegn ólæsi.
Gangi ykkur vel.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta