Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Íslensku tónlistarverðlaunin 20. febrúar 2013

Ágætu gestir

Þeir söngelsku halda því oft fram á hátíðarstundum að „það syngi enginn vondur maður“. Hvort hægt er að standa fyllilega við slíka alhæfingu, skal ósagt látið enda víða sungið í mannheimum og við margbreytileg tækifæri.

En íslenskir tónlistaráhugamenn vita að áratugum saman hefur tekið undir í Hamrahlíðinni hér í Reykjavík og þar hefur hreinlyndi og manngæska ávallt verið mikilvægur hluti af söngnum. Líkt og stundum á við um álfaklettana í þjóðsögunum hefur borist þaðan bjartur og fagur söngur. Oft nánast dáleiðandi.

Brosmild kona hefur farið fyrir flokknum áratugum saman, stýrt öllu saman af óþrjótandi orku og ávallt stefnt að hinum hreina og sanna tóni. Hún hefur stýrt söng þessa unga fólks sem vitanlega kemur og fer, þroskast og heldur áfram í lífinu, kynslóð fram af kynslóð. Söngurinn hefur verið mannbætandi, hann hefur fegrað heiminn og hreyft við ótal mörgum.

Þorgerður Ingólfsdóttir, heiðursverðlaunahafi íslensku tónlistarverðlaunanna að þessu sinni, hefur fyrir margt löngu skipað sér í framvarðarsveit íslensks tónlistarlífs. Hljómurinn sem hún hefur byggt upp í kórastarfi Menntaskólans við Hamrahlíð og með Hamrahlíðarkórnum er auðþekkjanlegur, það er eins og sindri af honum.

Þorgerður og unga fólkið hafa borið hróður íslenskrar sönghefðar og tónmenningar víða um lönd og þar hefur verið hugað jafnt að rótgrónum hefðum og framsýnni nýsköpun. Söngskráin er æði löng og verkefnin hafa verið stór og smá.

Uppeldisstarf Þorgerðar Ingólfsdóttur í íslensku tónlistarlífi er löngu orðið ljóst. Það er langur listi íslenskra tónlistarmanna sem notið hefur söngsins í Hamrahlíðinni í gegnum árin og síðar styrkt stoðir íslenskrar tónmenningar á fjölbreyttum stöðum. Skiptir þá litlu til hvaða tónlistarstefna er horft: í poppi, þjóðlagaskotinni tilraunamennsku, blýþungu rokki eða hrynfastri raftónlist, jafnt sem sígildri tónlist, djassi og auðvitað í söngnum í öllum sínum fjölbreyttu myndum, - ótal víða má finna söngfólk úr Hamrahlíðinni þegar horft er yfir sviðið. Af þessu má ljóst vera að íslenskt tónlistarlíf stendur í mikilli þakkarskuld við Þorgerði Ingólfsdóttur og hennar þrotlausa starf.

Það er haft eftir spænska rithöfundinum Cervantes, höfundi Don Kíkóta, að sá sem syngi bægi frá sér harmi sínum og raunum. Með starfi sínu með söngfólkinu öfluga í Hamrahlíðinni má ljóst vera að Þorgerður Ingólfsdóttir hafi hleypt birtu og hlýju bæði inn í líf kórmeðlima og okkar allra hinna sem höfum notið samhljómsins.

Kæra Þorgerður, hafðu bestu þakkir að hafa leitt unga fólkið í söng af jafn miklu listfengi og raun ber vitni. Og ég bið þig að koma hingað upp og taka við heiðursverðlaunum Íslensku ónlistarverðlaunanna og þakklætisvotti frá kollegum þínum í íslensku tónlistarlífi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta