Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Háskóladagurinn 9. mars 2013

Kæru gestir.

Fyrir röskum hundrað árum komst Guðmundur Finnbogason prófessor og síðar landsbókavörður svo að orði:

„Menntun“ er samstofna við „maður“, og að menntast ætti því að þýða að „verða að manni“, verða þannig, að allar eigindir manneðlisins nái hæfilegum þroska.

Þessi orð eru sérstaklega viðeigandi núna þegar háskólar leiða saman krafta sína til að kynna fyrir framtíðar nemendum þá námskosti sem í boði eru. Við getum eflaust slegið því föstu að einmitt hér í dag muni örlög margra nemenda ráðast.Í dagslok ákveður einn að verða læknir, annar kennari og sá þriðji verkfræðingur og hver veit nema einn fremsti bókmenntafræðingur framtíðarinnar leynist einmitt í þessum hópi eða þá vel menntaður stjórnmálamaður! Við vitum það hins vegar með vissu að samfélagið í heild sinni þarf á fólki að halda með fjölbreytta menntun og þjálfun.

Enginn deilir lengur um þjóðhagslegan ávinning menntunar og Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið fram til ársins 2020 í því tilliti. Við viljum mennta þjóðina betur og þar er háskólastigið engin undantekning. Það hefur vaxið mikið, bæði hvað varðar fjölda nemenda og námsframboð, en á sama tíma höfum við viljað efla gæði háskólamenntunar og tengja efri stig hennar, meistara- og doktorsnám, við rannsóknir og nýsköpun. Efling samkeppnissjóða á borð við Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð eru mikilvæg skref í þá átt, fyrst með því að verja þá niðurskurði eftir hrun og nú með auknu framlagi, sem mun gera sjóðunum kleift að styrkja umfangsmeiri verkefni og um leið skapa vaxtarmöguleika fyrir rannsóknatengt nám og rannsóknatengda nýsköpun.

Við gleymum því stundum í þjóðfélagsumræðunni að nám og aðgengi að menntun er að vissu leyti forréttindi, sem margir búa ekki við, jafnvel í hinum vestræna heimi og nægir þar að nefna Bretland og Bandaríkin sem dæmi. Á Íslandi hefur hins vegar ávallt ríkt samfélagsleg sátt um menntun þjóðarinnar þó svo að menn greini auðvitað alltaf á um einstaka útfærslur og fjárveitingar.

Í þessu samhengi má nefna að stjórnvöld hafa stutt háskólastigið eftir fremsta megni á undanförnum árum og þrátt fyrir óhjákvæmilegan niðurskurð eftir hrun hefur það ávallt verið forgangsatriði okkar stjórnmálamanna að efla háskóla og búa þannig í haginn fyrir framtíðina, enda þarf ekki að fara mörgum orðum um neikvæðar þjóðhagslegar afleiðingar af samdrætti í menntun og vísindastarfi svo ekki sé minnst á samkeppnishæfni Íslands í framtíðinni. Að þessu sögðu vil ég því ítreka þá stefnu stjórnvalda að auka framlög til háskóla og vísindamála um leið og rekstur ríkisins nær betra jafnvægi.

Það er mér sérstakt fagnaðarefni að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér á Háskóladeginum. Hann er haldinn hátíðlegur og allir háskólar á Íslandi kynna alla þá fjölmörgu möguleika sem þeir bjóða upp á. Háskóli Íslands kynnir starfsemi sína á ýmsum stöðum á háskólasvæðinu, Háskólinn í Reykjavík kynnir námsframboð sitt í sínu húsnæði og hér í Háskólabíói verða Háskólinn á Akureyri, Hólaskóli-Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn í Bifröst með kynningu á sínu námi.

Það verða því kynningar og ýmsir viðburðir á vegum háskólanna hér í Vatnsmýrinni í dag og án efa fjölmargt áhugavert bæði fyrir verðandi háskólanema og aðra sem leggja leið sína hingað

Um leið og ég óska ykkur til hamingju með daginn hvet ég ykkur til að skoða vel bæði skólana ognámsframboðið og nálgast það með opnum huga. Framtíð ykkar kann að ráðast í dag og það er vitanlega stór ákvörðun, - en hún er líka spennandi.

Ég lýsi Háskóladaginn 2013 settan og njótið dagsins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta