Innovit - Gulleggið 2013
Kæru gestir
Við erum saman komin hér í dag til að fagna með keppendum í Gullegginu, frumkvöðlakeppni íslenskra háskólanemenda og nýútskrifaðra sem Innovit stendur, - nú fyrir í sjötta sinn. Keppnin er haldin að fyrirmynd MIT-háskóla í Bandaríkjunum og VentureCup á Norðurlöndunum og hefur það meginmarkmið að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja.
Með árunum hefur keppnin vaxið í umfangi og virðingu og virkað sem stökkpallur fyrir einstaklinga svo þeir megi öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda. Gulleggið hefur þannig orðið að gæðastimpli á viðskiptahugmyndir og frumkvöðla og sem munu á næstu árum án efa laða að fleiri fjárfesta, skapa ný störf og verðmæti fyrir íslenskt þjóðfélag.
Með þátttöku í keppninni fá þátttakendur endurgjöf og aðstoð við að móta viðskiptaáætlanir sínar en tíu bestu viðskiptahugmyndirnar keppa til úrslita. Að þessu sinni bárust 327 viðskiptahugmyndir á fyrsta stigi keppninnar, 92 áætlanir voru sendar inn til yfirferðar á öðru stigi keppninnar og nú eru það 10 stigahæstu hóparnir sem eftir standa.
Keppnin er hins vegar ekki bara mikilvægt tækifæri fyrir frumkvöðla. Hún vekur einnig stjórnvöld til vitundar um mikilvægi þess að skapa hér umhverfi nýsköpunar og búa ungum fyrirtækjum vaxtarskilyrði. Íslenskt samfélag mun þá einungis vaxa og dafna ef unga fólkið okkar fær tækifæri til þess að skapa sér tækifæri og hasla sér völl. Það er hins vegar ekki þar með sagt að sá vegur sem frumkvöðlar þurfa að ganga sé alltaf tekinn út með sældinni enda stundum gott „að vera seinnitímamaður og finna upp skothvellinn þegar aðrir hafa fundið upp púðrið“ eina og Halldór Laxness komst eitt sinn að orði.
Mér er nú sönn ánægja að kynna til sögunnar sigurvegara í keppninni um Gulleggið 2013.
Ágætu gestir, njótið dagsins og til hamingju með árangurinn