Sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra
Ágætu þingfulltrúar.
Frá stofnun íþróttasambands fatlaðra árið 1979 hefur jafnt og þétt byggst upp öflugt íþróttastarf fyrir fatlaða. Að þeirri uppbyggingu hafa margir komið og unnið óeigingjarnt starf. Íþróttafélögum fjölgaði í kjölfarið af stofnun sambandsins og fjölbreytni íþróttagreina sem fötluðum var boðið upp á jókst. Segja má að margt hafi áunnist og færst til betri vegar og á íþróttasambandið og aðildarfélög þess þakkir skildar fyrir ötult starf að íþróttamálum fatlaðra. Í mínum samskiptum við forystufólk ÍF finn ég fyrir miklum metnaði og ástríðu fyrir starfinu í þágu fatlaðra og er það mjög verðmætt.
Eins og flestum innan vébanda íþróttahreyfingarinnar ætti að vera kunnugt var gefin út stefnumótun í íþróttamálum síðla árs 2011. Í þeirri stefnumótun kemur margt af því fram sem vinna þarf að í íþróttamálum. Sérsamböndin þarf að efla enn frekar og eru uppi áform um það hjá stjórnvöldum. Á ýmsu er tæpt í stefnunni sem horfir til umbóta og er mjög mikilvægt að allir aðilar sem að þeim málum koma eigi í góðum samskiptum og hafi á milli sín gott samstarf um þau markmið og leiðir sem birtast í stefnunni. Síðustu mánuði hefur starfshópur verið að störfum sem samanstendur af aðilum frá ráðuneytinu, ÍSÍ og sveitarfélögunum. Starfshópurinn hefur rætt við ýmsa aðila sem koma að íþróttamálum bæði frá íþróttahreyfingunni, háskólasamfélaginu og sveitarfélögum. Niðurstaðan úr þeirri vinnu skýrir enn betur hvað er framundan í því að framfylgja stefnunni og hvaða aðili ber ábyrgð á hvaða verkefni. Stjórnvöld koma að fjármögnun lykilverkefna íþróttahreyfingarinnar s.s. Afrekssjóði, Ferðasjóði og fjármögnun sérsambanda og reynt er að standa sem best að þeim málum á hverjum tíma. Ríkið kemur einnig að öðrum verkefnum sem snúa beint að íþróttahreyfingunni, þ.e. ÍSÍ, sérsamböndum og íþróttafélögum um land allt. Mikilvægt er að gott samstarf sé milli ríkis og sveitarfélaga sem vissulega bera einnig ábyrgð á sumum af þeim verkefnum sem snúa að íþróttastarfsemi í nærsamfélaginu. Það sem mestu máli skiptir að mínu mati er að allir þessir aðilar eigi með sér faglegt samstarf sem geti fært íþróttalífið í landinu á enn hærra plan, hvort sem litið er til afreksfólks eða almennings; barna, ungmenna, fullorðinna og eldri borgara - ófatlaðra og fatlaðra.
Ágætu þingfulltrúar. Ég átti þess kost að taka á móti ykkar frábæra íþróttafólki sem kom frá Ólympíumóti fatlaðra síðasta sumar. Það var mjög gleðileg og eftirminnileg stund og ekki skemmdi fyrir að okkar helsti afreksmaður vann til gullverðlauna á mótinu og setti heimsmet. Jón Margeir Sverrisson er okkur öllum dýrmæt fyrirmynd, svo ekki sé talað um allt það merka íþróttafólk sem starfað hefur innan vébanda sambandsins í sögu þess.
Það grasrótarstarf sem unnið er á ykkar vegum getur leitt til slíkra afreka en mikilvægast er þó að við reynum að skapa þá umgjörð um okkar íþróttafólk þar sem íþróttafólkið verður til og nýtur þátttökunnar um leið og það stefnir að settu marki. Við það að búa þessa umgjörð er ykkar ábyrgð mest.
Ég vona að þið eigið hér árangursríkt þing framundan.
Takk fyrir mig.