Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Skátaþing 15. mars 2013

Góðir gestir – kæru skátar.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur við setningu Skátaþings 2013.

Síðasta ár hefur verið viðburðaríkt hjá skátahreyfingu Íslands og aldarafmæli verið minnst með margvíslegum hætti. Á slíkum tímamótum er við hæfi að líta yfir farinn veg og hugsa til þess einstaka starfs sem skátahreyfingin hefur staðið fyrir um allan heim.

Á afmælisári skátahreyfingarinnar mátti glöggt sjá hvernig hreyfingin hefur þróast síðastliðin 100 ár og haft áhrif á samfélagið sem við búum í í dag. Á skjaladegi Þjóðskjalasafns Íslands mátti sjá brot af merkilegri sögu skátahreyfingarinnar og þeim menningarverðmætum sem starfsemi hennar hefur fætt af sér. Sagan sýnir okkur vel hvernig skátahreyfingin hefur nýtt sín tækifæri til þess að byggja á sínum menningararfi og um leið aðlagað sig að breyttu samfélagi. Skátastarfið hefur verið í stöðugri þróun og nú síðast með nýjum skátagrunni þá hefur skátahreyfingin styrkt þær uppeldisfræðilegu stoðir sem skátastarfið byggir á.

Skátaþingið sem nú er sett er mikilvægur vettvangur til að ræða málefni hreyfingarinnar og framtíðar horfur. Ég fékk hins vegar tækifæri til þess að kynna mér hið eiginlega hjarta starfseminnar þegar ég heimsótti Landsmót skáta við Úlfljótsvatn síðasta sumar. Þar kynntist ég þeim ótrúlega anda sem ríkir á móti sem þessu og sá hversu fjölbreytt og skemmtilegt skátastarfið er. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hversu mikil vinna liggur á bak við skipulagningu slíks móts en það kemur svo sannarlega í ljós mikilvægi sjálfboðaliða. Í slíkri skipulagningu býr skátahreyfingin yfir áratuga dýrmætri reynslu.

Framundan eru spennandi tímar fyrir skátahreyfingu á Íslandi og ber þar helst að nefna heimsmót skáta sem haldið verður á Íslandi árið 2017. Það er mikil viðurkenning og heiður fyrir íslenska skáta að fá að halda mót sem þetta og liggur þar að baki mikil vinna af hálfu skátahreyfingarinnar. Heimsmót skáta er einnig einstakt tækifæri til að kynna Ísland fyrir skátum úr öllum heimshornum.

Góðir gestir.

Nú á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga er þörf á hreyfingu líkt og skátahreyfingunni sem leggur áherslu á að þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir, hjálpsamir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu því þannig verðum við betra samfélag. Starf í hreyfingunni er mörgum mikilvægur skóli og fyrir það ber að þakka.

Ég vil óska Skátahreyfingu Íslands til hamingju með glæsilegt afmælisár og óska þess að kjörorð afmælisársins, „Ævintýrið heldur áfram“, muni verða orða að sönnu.

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta