Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Sýning um Snorra Sturluson í Reykholti

Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag og fá tækifæri til að segja nokkur orð og opna formlega sýningu sem helguð er þeim merka manni, Snorra Sturlusyni, sem þessi stofnun hér í Reykholti er helguð.

Líkt og á við um fleiri sem hafa skapað sér sess í þjóðarsögunni er hægt að skilgreina Snorra með ólíkum hætti eftir því hvaða hlið hans við viljum skoða; í fréttatilkynningu vegna þeirrar dagskrár sem fram fer hér í dag koma fram heitin goðorðsmaður, sagnaritari, stjórnmálamaður, heimsborgari; einnig væri – eðli málsins samkvæmt – hægt að bæta við titlunum lögsögumaður, hirðmaður konungs, en jafnframt stórbóndi og fjölskyldufaðir. Það hvílir ákveðin dulúð yfir þessum merka manni, og því verður minning hans í hugum okkar ætíð fersk og forvitnileg – það er alltaf hægt að finna nýjar hliðar til að ræða og rannsaka, skrifa um og skrafa, og sú sýning sem verður opnuð hér í dag veitir öllu áhugafólki um Snorra Sturluson vonandi kjörið tækifæri til að kynnast þessum margþætta manni nánar í máli og myndum. Snorri hafði Reykholt sem höfuðbýli og sjálfur staðurinn er því mikilvægur söguvettvangur, þannig að við erum á réttum stað.

Snorrastofu í Reykholti er ætlað mikilvægt hlutverk sem safn um Snorra Sturluson og miðstöð fræðslu um norræna sögu og bókmenntir sem tengjast Snorra Sturlusyni. Henni er einnig ætlað að kynna sögu Reykholts og Borgarfjarðarhéraðs sérstaklega, og er því mikilvæg menningarstofnun, ekki aðeins fyrir héraðið, heldur fyrir landið allt. Það er einkar gleðilegt að sjá starfsemi Snorrastofu blómstra og takast á við þetta mikilvæga verkefni, meðal annars með því að halda fræðslufundi og málþing, sem fjölbreytt dagskrá stofunnar ber vitni um, auk þess sem fræðimenn og listamenn, bæði innlendir og erlendir, fá tækifæri til að dvelja hér og sinna hugðarefnum sínum í tengslum við staðinn og minningu þess merka manns sem saga Reykholts er öðrum fremur tengd við.

Snorra eru ekki bara eignuð mörg af okkar merkustu bókmenntaverkum heldur var Snorri sjálfur hluti af sögu Sturlungualdar, einu viðburðarríkasta og afdrifaríkasta skeiði Íslandssögunnar. Hann skóp söguna ekki aðeins með fjaðurpenna sínum, heldur ekki síður með þátttöku sinni í viðburðum þess tíma sem litríkur og voldugur stjórnmálamaður. Snorri var tengdur flestum voldugustu ættunum frá þessum tíma, vel menntaður heimsmaður.

Það verður því fróðlegt að fá notið þeirrar sýnar, sem sýningin „Saga Snorra“ mun veita okkur á manninn og hans tíð.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta