Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Verndun húsaminja - málþing

Kæru gestir

Það hefur ekki komið fram í fréttum að íbúar og gestir hér á Hvanneyri hafi fagnað síðustu áramótum með neitt sérstökum hætti; það er líklegra að áramótagleðin hafi verið með hefðbundnu sniði líkt og hjá öðrum landsmönnum. Þó var hér um að ræða sérstök tímamót, ef betur er að gáð. Um síðustu áramót gengu í gildi ný lög um menningarminjar, sem meðal annars hafa í för með sér að frá 1. janúar sl. njóta nokkur merkustu húsin hér á Hvanneyri friðunar í samræmi við ákvæði laganna. Þetta eru skemman sem var byggð árið 1900, kirkjan sem var byggð árið 1906, skólahúsið frá 1910 og íþróttahúsið sem reis ári síðar – og því er fullt tilefni til að óska unnendum Hvanneyrar til hamingju með áramótin, þó seint sé: Gamli staðurinn er semsagt kominn á lista yfir friðaðar byggingar. 

Þau gildi sem að huga þarf að þegar byggingar rísa eru óháð tíma, og hafa verið óbreytt frá örófi alda: Í fyrsta lagi að þær þjóni þeim tilgangi sem þeim er ætlaður (notagildið), síðan að þær séu vel gerðar (tæknigildið, varanleikinn og staða í umhverfinu), og loks að þær séu til sóma  í samtíma sínum og um fyrirsjáanlega framtíð (hið listræna gildi fegurðarinnar).

Vægi þessara gilda endurspeglar efnahagslega og menningarlega stöðu þjóða. Fátæk þjóð hugar fyrst og fremst að notagildi þeirra húsa sem takmörkuð fjárráð gera henni kleift að byggja, en við betri efni er hægt að vanda betur til verka; eftir því sem menningarleg vitund rís hærra er síðan mögulegt að líta enn frekar til þeirra listrænu gilda, sem fram koma í þeim mannvirkjum sem endurspegla stöðu þjóðarinnar.

Íslendingar höfðu í gegnum aldirnar lítil efni á að láta til sín taka á sviði byggingarlistar, en þó er vert að halda til haga ýmsum dæmum úr sögu landsins um reisulegar byggingar, sem báru göfugt vitni metnaði og framfarahug, þrátt fyrir takmörkuð efni. Þau rúmlega aldargömlu hús sem hér hafa verið nefnd eru ótvírætt meðal slíkra dæma, og ekki síst fyrir þá staðreynd að þau eru meðal fyrstu verka okkar fyrstu arkitekta, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar, Guðjóns Samúelssonar og Einars Erlendssonar. Þeir áttu allir eftir að láta mikið að sér kveða í byggingarsögu þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar, þegar vaxandi velmegun þjóðarinnar, bætt menntun og aukin þekking urðu til þess að hér risu ýmsar þær byggingar, sem okkur þykja enn með þeim glæsilegustu á Íslandi.

Nú er það skylda okkar að hlúa að góðri byggingarlist og reisa mannvirki sem þjóna hlutverki sínum með sóma, eru vel gerð og hafa listræn gildi að leiðarljósi. „Menningarstefna í mannvirkjagerð – Stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist“ sem ríkisstjórnin staðfesti í apríl 2007, felur meðal annars í sér samþættingu margra hagsmuna um heildarhugsun í mótun, varðveislu, uppfræðslu og framþróun manngerðs umhverfis. En í samhengi þessa málþings vil ég sérstaklega vekja athygli á þeim kafla þessarar stefnumótunar þar sem fjallað eru nauðsyn þess að varðveita með verðugum hætti þann byggingararf, sem við getum þegar státað af, og að það verði gert í góðu sambýli við náttúruna, sem við þurfum sífellt að standa á varðbergi um.

Góðir gestir,

Skáldið Goethe sagði fyrir um tvö hundruð árum síðan: „Ég kalla byggingarlist frosna tónlist.“ Allir þeir sem fá notið þeirra húsa sem mynda „Gamla staðinn“ hér á Hvanneyri, geta, ef þeir leggja sig eftir því, numið þann þýða tón sem samspil húsa og umhverfis mynda í jafnvægi heildarinnar. Þessi samkoma ber því vitni, að fólk hér á staðnum er sér vel meðvitað um þennan tón, og ætlar að varðveita hann til framtíðar eftir því sem kostur er. 

Ég set hér með málþing um húsaminjar á Hvanneyri – „Gamla staðinn“ og óska öllum þátttakendum góðs fundar. – Takk fyrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta