Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Frá stríðsmenningu til friðarmenningar

Ágætu gestir

Þau okkar sem komin voru til einhvers vits í Kalda stríðinu muna eftir hvernig öll umræða um alþjóðastjórnmál snérist um kjarnorkuvopn. Hver átti sprengju, hver mátti eiga sprengju, hver gat eignast sprengju, hver vildi eiga sprengju og hver gat notað sprengjuna? Fimbulvetur í kjölfar kjarnorkustríðs var martröð mín í æsku og vafalaust margra annarra.

„Ógnarjafnvægi“ var hugtak eða öllu heldur nafn á kenningu sem sett var fram til þess að réttlæta tilvist Sprengjunnar. Hún byggði á því að ógnin um gagnkvæma gereyðingu af völdum kjarnorkuvopna fældi andstæðinga frá því að gera árás. Með öðrum orðum var kjarnorkusprengjan forsenda friðar samkvæmt þessari kenningu. Þó þessi kenning hafi verið á miklu undanhaldi er hún ekki alveg búin að vera. Sem dæmi um það hafa ýmsir fært rök fyrir mikilvægi þess að Íranir eignist kjarorkuvopn til þess að tryggja stöðugleika í Miðausturlöndum.

Þrátt fyrir kenninguna um ógnarjafnvægið hefur kjarnorkusprengjum verið varpað á byggðir manna. Við megum aldrei gleyma að Bandaríkin vörpuðu tveimur sprengjum á tvær borgir í Japan árið 1945, Hiroshima þann 6. ágúst og Nagasaki þann níunda. Það sýnir að ekki er útilokað að einhver beiti vopnum með slíkan gereyðingakraft. Sú staðreynd er næg röksemd fyrir því að losa heiminn við kjarnorkuvopn.

Þessi kenning og þær hugmyndir sem að baki henni liggja eru afsprengi stríðsmenningar, menningar sem byggir á því að þjóðir eða hópar skilgreini hagsmuni sína sem réttlætanlegt sé að verja með öllum tiltækum ráðum fyrir þeim sem álitnir eru andstæðingar. Þessi menning er manninum ekki eðlislæg enda er hann miklu frekar forvitin félagsvera sem þyrstir í samskipti og nýjar uppgötvanir. Allt slíkt er bannað eða álitið stórhættilegt í stríðsmenningunni. Stríðsmenningin elur af sér hættur fyrir okkur sjálf og því mikilvægt að við vinnum ávallt að friði og göngum út frá því að ofbeldi sé aldrei ásættanlegt og sköpum þannig friðarmenningu.

Það er ánægjulegt að geta sagt að heimurinn fer að mörgu leyti batnandi. Áherslan á kjarnorkuvopn er minni en áður, þó að þau séu enn til staðar en gegnumsýri vitund okkar ekki eins svakalega í kalda stríðinu. Þess vegna erum við einmitt hér. Til þess að knýja á um að sáttmáli um bann og eyðingu kjarnorkuvopna verði að veruleika fyrir árið 2015. Liður í því er að Alþingi lýsi Ísland kjarnorkuvopnalaust svæði í samræmi við þingsályktunartillögu sem ég ásamt þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað lagt fram á Alþingi.

Þessi sýning er liður í baráttunni fyrir því að losa okkur öll undan þeirri ógn sem kjarnorkuvopn eru og vonandi færir það okkur nær því markmiði.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta