Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Íslenski dansflokkurinn 40 ára

Ágætu dansarar og dansáhugamenn

Það er merkilegt til þess að hugsa dansflokkurinn sé orðinn fertugur, þessi menningarstofnun okkar Íslendinga sem alltaf er svo síung og sprellandi. Á sýningar flokksins er gott að koma til að hlaða batteríin – sjúga í sig alla orkuna sem hreinlega geislar af dönsurunum í hvert skipti sem maður sér uppsetningar hans. Þar eru svo sannarlega á ferðinni listamenn sem gefa af sér og maður fer allur hressari heim. Það eru fáir staðir jafn góðir til að fá beint í æð ástríður og átök og einmitt þessar sýningar. Þannig að nú á síðustu og verstu tímum er ekki slæmt að vera hingað komin

Listrænn metnaður hefur ávalt verið samfara þessari miklu orku. Eins og ég þarf líklega ekki að fjölyrða um hér í kvöld þá hefur dansinn vitanlega fylgt manninum alveg frá því að hann fór að slá taktinn, eða kannski er líklegt að menn hafi fyrst farið að dilla sér. Í samanburði við þessa eilífð er saga Íslenska dansflokksins ósköp stutt, en ég er fullviss um að á þessum fjörutíu árum hefur skilningur fyrir mikilvægi þessa starfs aukist jafnt og þétt. Dansinn er í dag nauðsynlegur þáttur í listalífi landsmanna í sínum fjölbreyttu myndum.

Íslenski dansflokkurinn hefur, eins við vitum, lagt mikið fram til við að efla orðspor íslenskrar menningar á erlendri grund. Nú síðast tók flokkurinn þátt í Nordic Cool menningarhátíðinni sem fram fór í Kennedy listamiðstöðinni í Washington. Starfsemi flokksins er síðan í nánum tengslum við erlenda strauma og stefnur í dansheiminum á hverjum tíma. Við uppsetningu verkefna koma reglulega erlendir listamenn til samstarfs við flokkinn og það er gríðarlega dýrmætt, hefur ávallt aukið fjölbreytni í starfsemi flokksins.

Það er stundum sagt – og kannski ekki skrítið í bókmenntalandi - að listir og menning á Íslandi séu fyrst og fremst menning orðsins. Það er því bæði nauðsynlegt og hressandi að njóta af og til lista sem hafa frelsi undan orðunum, eins og dansinn er í öllum aðalatriðum. Þetta er nauðsynlegt jafnvel þó að maður sitji síðan úti í sal á samtímadanssýningum og rembist við að þýða upplifunina yfir á hinn orðaða veruleika. Búa til skilning orðanna, sögu.

Það eru heldur ekki léttvæg málefni sem koma fyrir í sýningum dansflokksins. Þar er oftar en ekki á ferðinni glíman í lífi okkar mannanna. Þar er boðið bæði upp á flóknar og einfaldar sögur. Tíminn leikur oft stórt hlutverk og hrynjandi lífsins. En fyrst og síðast dáist maður af þessum óþrjótandi krafti dansaranna, hve tilfinningarnar eru gríðarlega sterkar og miklar sem krauma upp á yfirborðið í sýningum flokksins. Orka - er fyrsta orðið sem kemur upp í hugann, orkan í manninum.

En á fjörutíu ára afmæli þessarar stofnunar er rétt að þakka fyrir það starf sem Íslenski dansflokkurinn hefur unnið á þessum árum sem liðin eru frá stofnun hans.

Megi starfsemin þroskast á alla vegu í framtíðinni. 

Bestu þakkir og til hamingju með afmælið

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta