Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Nótan 2013 - Uppskeruhátíð tónlistarskólanna

Góðir gestir

Tónlistarskólarnir í landinu eru jarðvegurinn sem nærir gróskuna í íslensku tónlistarlífi. Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskólanna, ber þessari staðreynd fagurt vitni. Fá svið íslensks samfélags hafa jafn breiða skírskotun og íslensk tónlist sem vekur hrifningu víða um heim og eykur forvitni um landann.

Hæfileikarnir koma berlega í ljós í keppni á borð við Nótuna og hvatningin sem hún veitir ungu tónlistarfólki er nauðsynleg. Samanburður er hollur, það að standa fyrir framan sal af fólki þroskar mann á fjölbreyttan máta. Þetta hafa menn lengi vitað. Gríski heimspekingurinn Aristóteles benti á áhrif tónlistar á siðferðisþrek mannsálarinnar. Hann taldi að fyrst tónlistin hefði mannbætandi áhrif þá þyrfti að beina ungu fólki inn á þessa braut og mennta það í tónlist. Tónlist var ein af grunnþáttum í hinni heildsteyptu manneskju.

Tónlistariðkun er líka félagsleg athöfn. Samleikurinn kennir tónlistarfólki að vinna saman að settu markmiði, slípa útkomuna og skerpa. Allt stefnir að sama marki og útkoman þarf að vera sem best einmitt þegar hefja á leik fyrir framan áheyrendur.

Það að hlusta krefst líka einbeitingar, við verðum að gefa okkur tónlistinni á vald og þegar best lætur hefur tónlist þau áhrif að mörkin milli vitundar okkar og heims tónanna þurrkast út. Hrynjandi eða hljómagangur geta vakið sterkar tilfinningar og orðanna gerist varla þörf.

Fáir hafa talað jafn fallega um tónlist á Íslandi og rithöfundurinn Halldór Laxness sem flutti eitt sinn erindi í Ríkisútvarpið um sellósvíturnar eftir Bach, eða hnéfiðlu-samstæðurnar, eins og hann kallaði verkin sex. Þar sagði skáldið m.a.:

„Mér finnst einlægt að þeim sem eru að reyna að útskýra tónlist með orðum sé ekki ljóst hlutverk orða og þaðan af síður tónlistar“ sagði Halldór í erindi sínu og spurði síðan um verk Bachs:

„Hverju fá orð aukið við þetta verk? Hvað tjáir þessi einfalda og stórbrotna tilraun í laglínu sem er um leið svo óhemjulega smágerð og næm? Þó grannt sé hlustað æ ofan í æ, og þó undrun og aðdáun þess sem hlustar verði æ því meiri sem hann hlustar lengur, þá heldur þó aðalatriðið áfram að vera jafn óuppgötvað og það er óumræðilegt. Menn geta sosum reynt að svara í orðum og það hefur sjálfsagt oft verið gert, en ætli flest svörin verði öllu meira en endurtekning, að breyttu breytanda, á svörum við gömlu spurningunni: til hvers er sólin, tunglið og stjörnurnar?“

Ágætu gestir og frábæra unga tónlistarfólk.

Það er nauðsynlegt að reyna að leita eftir þeirri fullkomnun sem skáldið talaði þarna um – leita að hinum eina sanna tóni og týna sér í ríki tónlistarinnar.

Bestu þakkir fyrir að leggja ykkur fram og gangi ykkur vel með leitina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta