Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Íþróttaþing íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Kæru gestir

Undanfarin ár hafa verið umbrotasöm í íslensku samfélagi. Íþróttalífið í landinu hefur þurft að aðlagast aðstæðum líkt og aðrir málaflokkar. Vissulega hefur á sviði ríkis og sveitarfélaga þurft að takast á við efnahagsvanda sem hefur haft áhrif á fjárveitingar til íþrótta.

Hins vegar má segja að íþróttir og íþróttaþátttakan blómstri sem aldrei fyrr. Hvert sem litið er virðist aukin þátttaka blasa við, hjá börnum og ungmennum, eldri borgurum og sprenging hefur orðið í öllum aldurhópum hvað þátttöku í almenningsíþróttum varðar. Við sjáum einnig ágætan árangur af verkefnunum „heilsueflandi grunn- og framhaldsskóli“. Innleiðing þeirrar hugmyndafræði er í höndum Landlæknisembættisins í samstarfi við hvern skóla. Íþróttafélögin í nærsamfélaginu hafa talsverð áhrif á það verkefni því aðkoma þeirra er mikil á svokölluðum afrekssviðum, sem boðið er upp á í framhaldsskólum og í einhverjum tilvikum sem val í grunnskólum. Fyrstu niðurstöður rannsókna á því hvernig verkefnið um heilsueflanda skóla kemur út benda til þess að nemendur sem eru á afrekssviðunum ná betur að tileinka sér heildarhugmyndafræðina sem býr að baki og snertir næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Það er ekki síst metnaðarfullu starfi einstakra íþróttafélaga að þakka. Áhrifin, sem þetta allt hefur, eru að verða áþreifanleg og jákvæð fyrir okkar samfélag.

Íþróttastefnan, sem sett var 2011 miðar að því að efla ýmsa þætti íþróttalífsins. Stefnan sem slík er fjölþætt en að mótun hennar komu aðilar frá ríki, sveitarfélögum, íþróttahreyfingunni og fræðasamfélaginu. Í kjölfar fundar með ÍSÍ og sérsamböndum á síðasta ári setti ég af stað starfshóp sem var falið það verkefni að athuga betur hvernig hægt væri að hrinda stefnunni í framkvæmd. Starfshópurinn hefur lokið störfum og skilaði af sér nokkuð ítarlegri aðgerðaráætlun sem ráðuneytið, íþróttahreyfingin og sveitarfélögin geta stuðst við í áframhaldandi starfi. Hlutverk ríkisins gagnvart íþróttahreyfingunni hefur fyrst og fremst falist í fjármögnun heildarsamtakanna ÍSÍ og UMFÍ, fjárhagsstuðningi við starfsemi sérsambanda og fjárframlagi í Afrekssjóð og Ferðasjóð. Ráðuneytið og ÍSÍ taka þar að auki sameiginlega ábyrgð á lyfjaeftirliti í íþróttum. Fyrir utan þetta koma svo fjárframlög úr Lottó og Getraunum einnig til starfsemi sérsambanda, héraðssambanda og íþróttafélaga. Sveitarfélögin hafa stutt við íþróttastarf íþróttafélaganna hvert á sínu svæði með aðstöðu og í mörgum tilvikum fjárhagsstuðningi. Þetta er í grófum dráttum það kerfi sem við búum við í dag.

Þegar kemur að því að styrkja þessar stoðir frjálsrar íþróttastarfsemi höfum ráðuneytið á undanförnum misserum rætt við ÍSÍ um leiðir og einnig koma fram í fjárlögum 2013 hækkanir á framlögum til sérsambanda, Afrekssjóðs og Ferðasjóðs. Samningar til lengri tíma hafa hins vegar ekki náðst við ÍSÍ og kemur það í hlut næstu ríkisstjórnar að fylgja því eftir.

Ég hef á fjölmörgum fundum mínum með fulltrúum bæði ÍSÍ og einstakra sérsambanda rætt stöðu íþrótta og hef átt ánægjuleg samskipti við alla þá sem ég hef hitt á þessum vettvangi og vil ég þakka fyrir það. Staða íþrótta í íslensku samfélagi er sterk þó alltaf megi finna nýjar leiðir og huga að framtíðarskipan mála. Sú vinna allra aðila sem koma að íþróttamálum mun halda áfram á komandi misserum.

Bestu þakkir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta