Menntaþing í Borgarbyggð
Góðir þinggestir
Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með frumkvæði Borgarbyggðar að halda sérstakt menntaþing þar sem ætlunin er að greina sérstöðu Borgarbyggðar sem skólasamfélags. Það er mikilvægt að reyna að átta sig á því fyrir hvað samfélagið vilji standa í þessum efnum og ræða tækifæri til aukins samstarfs milli skólastofnana í héraðinu. Segja má að þetta menntaþing sé eðlilegt framhald af Borgarfjarðarbrúnni, metnaðarfullu samstarfsverkefni grunn- og framhaldsskóla í héraðinu fyrir nokkrum árum. Jafnframt er kjörið að nýta nýjar aðalnámskrár til að leiða saman alla aðila skólasamfélagsins, allt frá leikskóla upp í háskóla til að ræða um áherslur, samstarf og samfellu í námi og kennslu.
Gaman er að rifja upp að í tengslum við stofnun Menntaskóla Borgarfjarðar 2006 og útgáfu aðalnámskrár grunnskóla 2007 var ákveðið að efna til formlegs þróunarverkefnis í Borgarbyggð í því skyni að styðja við umbætur á skólanámskrám framhaldsskólans og allra grunnskóla í Borgarfirði þannig að þeir gætu verið í fararbroddi í skólaþróun. Um var að ræða þriggja ára verkefni sem hófst 2007 og lauk formlega sumarið 2010. Markmið með verkefninu var að skapa samfellu milli grunn- og framhaldsskóla, auka sveigjanleikja milli og innan skólanna og mæta breytilegum þörfum ólíkra nemenda. Lokamarkmið verkefnisins var betri menntun á svæðinu, minna brottfall og aukið sjálfstæði og frumkvæði nemenda. Mennta- og menningarmálaráðuneytið veitti styrki til þessa verkefnis og árið 2010 lét það gera úttekt á því. Í úttektarskýrslunni komu bæði fram veikleikar og styrkleikar verkefnisins og jafnframt að það hefði orðið ávinningur af því. Sérstaklega er tilgreint að verkefnið hefði leitt til gróskumikillar og faglegrar umræðu á tveimur skólastigum, sem talin er geta leitt til betra skólastarfs – bæði fyrir nemendur og kennara og aukinnar starfsánægju beggja. Hins vegar náðust ekki öll markmið verkefnisins, enda vart við því að búast því má segja að markið hafi verið sett mjög hátt og ytri aðstæður í samfélaginu skömmu eftir bankahrunið hjálpuðu ekki til. En af þessu má draga þá ályktun að það er vilji og ásetningur skólasamfélagsins í Borgarfirði að stefna að auknu samstarfi þvert á skólastig og er það í góðu samræmi við áherslur í nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Ég tel að skóli eigi að vera hreyfiafl í samfélaginu. Til þess var hann stofnaður. Íslenski almenningsskólinn varð til og þróaðist á félagslegum og pólitískum umbrotatímum. Hann var nauðsynlegur þáttur í þeirri endurnýjun efnahagskerfis, félagsgerðar og hugmyndafræði sem við köllum nútímavæðingu. Þessar breytingar hér á landi voru að sjálfsögðu hliðstæðar breytingum sem áttu sér stað á Norðurlöndunum og öðrum nágrannalöndum, enda voru fyrirmyndir og hugmyndir óspart sóttar þangað.
Þeir aðilar sem stóðu að og leiddu stofnun almenningsskólans og uppbyggingu hans gerðu beinlínis ráð fyrir að hin nýja stofnun væri pólitískt og félagslegt hreyfiafl í nýju samfélagi. Nýi almenningsskólinn átti ekki eingöngu að fræða um nýtt samfélagsform og hugmyndir nútímasamfélagsins, heldur beinlínis stuðla að menntun þegnanna þannig að þeir gætu skilið samfélagið og tekið þátt í mótun þess og uppbyggingu.
Almenningsskólinn tók stórstígum breytingum á 20. öld. Forsendur skólahalds eins og þær birtast í stefnumótun, löggjöf, námskrám og skýrslum eru þó enn þær sömu: Lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og jafnrétti þegnanna. Framsetning þessara grunnþátta menntunar og skólahalds hefur þó breyst og þróast í takt við samfélagsbreytingar og nýja þekkingu. Hugmyndir um lýðræði og jafnrétti hafa breyst, einnig hugmyndir um menntun, þekkingu og hæfni.
Mörg stærstu vandamál samtímans eru þess eðlis að þau munu lenda með auknum þunga á komandi kynslóðum. Félagsleg vandamál verða ekki greind frá efnahagslífi og umhverfismálum. Loftslagsbreytingar af manna völdum, aukinn ágangur á auðlindir jarðar, ósjálfbær neysla og lifnaðarhættir eru dæmi um þá hættulegu stefnu, sem viðgengist hefur víða um heim, að eðlilegt sé að ganga á auðlegð heimsins og taka ótæpilega að láni frá komandi kynslóðum. Þessum hugsunarhætti þarf að breyta og ein leið til þess er að auka meðvitund unga fólksins um umhverfi sitt og hvernig við stuðlum að sjálfbærri þróun. Við þurfum að gera nemendur dagsins í dag hæfa til að takast á við samfélag framtíðar.
Áherslan á hæfni nemenda er í takt við breyttar áherslur í menntamálum víðs vegar um heiminn. Hún segir okkur að það er ekki nóg að einblína á hvaða námsgreinar eru kenndar eða hvað nemendum er kennt innan hverrar námsgreinar; heldur hvernig þeir geta nýtt þekkingu sína og leikni, yfirfært og tengt við daglegt líf, störf og kröfur næsta skólastigs. Markmið með námi í skólum snýst þannig ekki einungis um að auka þekkingu, leikni og hæfni í mismunandi námsgreinum heldur að stuðla að alhliða þroska allra nemenda, gera þá læsa á samfélagið, menningu, umhverfi og náttúru, þannig að þeir búi yfir framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélaginu, breyta því og þróa áfram.
Nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er meðal annars ætlað að gera komandi kynslóðir betur í stakk búnar til að takast á við þær miklu áskoranir sem fram undan eru. Liður í þessu er áhersla á sex grunnþætti menntunar: læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.
Við gerum okkur öll fulla grein fyrir að þróun skólakerfisins er vandasamt verk. Ekki nægir að breyta texta í löggjöf og námskrám til að breyta skólastarfinu. Þar þurfa að koma til nýjar hugmyndir og markvissar áherslur í starfi kennara og skólastjórnenda. Möguleikar skólanna til að verða raunverulegt hreyfiafl í samfélaginu byggjast fyrst og fremst á starfi kennaranna, fagmennsku þeirra, áhuga og sköpunarmætti.
Ráðuneytið vinnur nú að innleiðingu nýrra námskráa í samstarfi við sveitarfélög og samtök kennara og foreldra, en ljóst er að í svo viðamiklu verkefni þurfa margir aðilar að leggjast á árar og samstarf milli sem flestra aðila er lykillinn að því að vel takist til. Út eru komin fimm af sex þemaheftum um grunnþættina, sem ætlað er að vera til leiðbeiningar fyrir skólastjórnendur og kennara um innleiðingu þáttanna í skólanámskrá og kennslu. Um þessar mundir er verið að dreifa og kynna síðari hluta aðalnámskrár grunnskóla, þ.e. fyrir einstök greinasvið, og með þeirri útgáfu lýkur formlega heildarendurskoðun á aðalnámskrám sem unnið hefur verið að frá setningu menntalaganna 2008.
Skólar eru margbrotnar stofnanir og í raun frekar samfélög en stofnanir. Engir tveir skólar eru eins. Hver skóli hefur sín sérkenni; sína sögu og menningu. Eins og önnur samfélög breytast skólar, hvort sem við viljum eða ekki. Og breytingar eru ekki allar til góðs. Æskilegar breytingar köllum við þróun og við getum stuðlað að skólaþróun á meðvitaðan hátt. Þróunarstarf er skapandi verkefni kennara, stjórnenda og skólasamfélagsins alls í hverjum skóla. Það snýst um fjölþætt samspil skólamenningar og jákvæðra breytinga á henni. Skólaþróun er ekki breyting breytinganna vegna. Við viljum gera skólana betri. Sagt er að engin raunveruleg þróun sé átakalaus, þannig að í slíku starfi þarf fólk að stíga út fyrir þægindahringinn og fara í nokkurs konar óvissuferð. Það er einnig eðli þróunarverkefna að þau breytast gjarnan með tímanum og rétt er að taka fram að frávik frá upphaflegri áætlun þurfa ekki endilega að vera neikvæð fyrir starfsemina.
Ágætu menntaþingsgestir. Í upphafi máls míns greindi ég frá tilraunaverkefninu Borgarfjarðarbrúnni og metnaðarfullum markmiðum þess. Þótt ekki hafi þau öll gengið eftir, m.a. vegna erfiðra ytri aðstæðna kom ýmislegt áhugavert fram í úttektinni, sem gerð var á því. Þar má til dæmis nefna:
að fagleg umræða kennara hafi styrkst og eflst
að samstarf fagkennara milli skólanna jókst
að verkefnið hafi rofið faglega einangrun kennara
að þróunarvinna sé í gangi með kennsluhætti og námsmat í öllum skólunum
að mikill áhugi sé til að efla samstarf skólastiganna
að áhugi sé á að auka notkun upplýsingatækni í skólastarfsinu.
Þá er einnig nefnt sem ávinningur af verkefninu að jákvæð breyting hafi orðið á starfsháttum og samstarfi kennara innan og á milli allra skólanna. Sérstaklega var það talin vítamínssprauta og mikilvægt fyrir kennara að fá að hittast, ræða saman og vinna faglega saman, og mikill áhugi á að halda því áfram.
Ég vil að lokum hvetja ykkur til að þróa áfram samstarf allra skólastofnana í Borgarfirði og bæði líta þar til reynslunnar af Borgarfjarðarbrúnni og nýta nýja aðalnámskrá sem samræðuvettvang um megináherslusvið. Ég óska ykkur til hamingju með þetta menntaþing og góðs gengis í störfum þingsins og í framhaldinu. Það er mikilvægt að skiptast á skoðunum og ræða málin með jákvæða þróun í skólamálum að leiðarljósi.
Takk fyrir !