Eiríkur Magnússon bókavörður í Cambridge
Kæru gestir
Nafn Eiríks Magnússonar er ekki jafn þekkt og ýmissa samtíðarmanna hans á 19. öld; í raun má segja að á hann sé almennt litið sem aukapersónu í þeirri miklu umræðu um málefni Íslendinga á síðari hluta aldarinnar, sem Jón Sigurðsson leiddi – að hann hafi aðeins verið einn af mörgum sem stóðu þétt að baki foringjanum.
En Eiríkur Magnússon hafði sérstöðu í þeim hópi, og á fyllilega skilið að hans sé minnst sérstaklega. Um það vitnar sú ágæta sýning sem verður opnuð hér í dag, sem og fjölbreytt erindi sem verða flutt hér á eftir á málþingi, sem haldið er í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því hann lést, tæplega áttræður að aldri.
Eiríkur Magnússon er jafnan kenndur við stöðu sína sem bókavörður í Cambridge, þar sem hann starfaði í 38 ár, bæði á bókasafni háskólans og sem fyrirlesari og kennari á sviðum norrænna fræða. Hann hafði hins vegar lært til prests hér á landi, var mikilvirkur þýðandi og fræðimaður og lét sér fátt óviðkomandi um íslensk málefni, eins og hér verður fjallað um á eftir. Væri hann uppi í dag væri Eiríkur án efa meðal konunga samskiptamiðlanna, og tengslanet hans hefði á öllum tímum talist með því besta í Íslandssögunni. Stuðningur hans við Jón Sigurðsson hefur komið vel fram í bókum um ævisögu Jóns, og er ljóst að í Eiríki átti Jón dyggan stuðningsmann á meðan hann lifði. Þá hefði eflaust verið fróðlegt að fylgjast með bréfaskiptum hans við fjölmennan hóp framvarðasveitar menningarlífs og þjóðfélagsmála á Íslandi á síðari hluta 19. aldar, en meðal þeirra sem Eiríkur tengdist á sínu æviskeiði og skrifaðist á við um einhvern tíma má nefna skáldin Benedikt Gröndal, Matthías Jochumsson og Steingrím Thorsteinsson, Sigurð Guðmundsson málara, Helga Helgesen skólastjóra barnaskólans, Vilhjálm Finsen landfógeta og síðar dómara við Hæstarétt Danmerkur, Pétur Pétursson síðar biskup, Þorstein Erlingsson skáld og ritstjóra, Björn Jónsson ritstjóra, Tryggva Gunnarsson bankastjóra, og loks Skúla Thoroddsen, eins og vikið verður að hér á eftir. Fleiri mætti nefna til sögunnar, en Eiríkur var afar hirðusamur um skjöl sín og bréf hans eru varðveitt í handritadeild þessa ágæta safns, enn einn fjársjóðurinn sem finna má hér í húsi.
En þar sem við erum stödd í bókasafni er ekki úr vegi að minnast þess, að Eiríkur Magnússon var bókavörður að ævistarfi, og setti sem slíkur fram afar áhugaverðar hugmyndir um gildi bókasafna fyrir almenning, og jafnvel um hönnun bókasafna. Þessar hugmyndir hans komu vel fram í grein um Landsbókasafnið sem birtist í Þjóðólfi 19. júlí 1884, sem var kynnt sem hluti úr bréfi Eiríks til kunningja síns í Reykjavík. Þar hljómar fyrst kunnuglega umræða um of lítið rekstrarfé til handa safninu frá hendi Alþingis og of mikil áhersla á skemmtibækur og skáldsögur, en síðan lýsir Eiríkur mikilvægu hlutverki almenningsbókasafna víða um lönd, og hugmyndum sínum um kringlótt hús fyrir bókasafn landsins, sem auðvelt væri að stækka og bæta endalaust við í eins konar spíral-byggingu utan um það sem fyrir var. Þessi hugmynd fékk alþjóðleg verðlaun á sínu sviði í París 1893 og er enn þekkt í fræðunum, þó ekki sé vitað til að byggt hafi verið bókasafn sem má rekja beint til hennar. En hver veit.
Góðir gestir,
það er ljóst að Eiríkur Magnússon var fjölhæfur, fjölfróður og dugmikill maður, sem vildi landi sínu allt hið besta og lagði sitt af mörkum til að á Íslandi kæmist á legg dugmikil, vel menntuð menningarþjóð. Slíkra manna ber að minnast, og það verður gert hér í dag. Ég segi hér með málþing og sýningu um Eirík Magnússon opna.
Takk fyrir.