Vinnudagur um speglaða kennslu í Ásbrú
Ágætu þátttakendur í vinnudegi um speglaða kennslu.
Hraðar breytingar hafa orðið í tækniumhverfi okkar undanfarin ár. Þar eru mest áberandi margvísleg stafræn tæki, sem virðast hafa sprottið upp eins og gorkúlur á öllum sviðum samfélagsins. Þessi nýja tækni veitir okkur nýja möguleika til að takast á við verkefni daglegs lífs, í leik og starfi. Um leið breytir nýja tæknin því, hvernig við skynjum og skiljum umhverfi okkar og veruleika.
Það er ekki ýkja langt síðan tölvur urðu almenningseign og enn styrra síðan þær urðu eðlilegur hlutur í skólastarfi. Á fáum árum hefur tækjum og tólum sem byggja á stafrænni tækni fjölgað mikið á heimilum, á vinnustöðum - og í vasanum!. Ólík tæki sem áður voru notuð til að safna gögnum, flokka þau og til að greina upplýsingar og til að miðla efni hafa nú tengst þráðlaust og notagildi þeirra aukist að sama skapi.
Á tímum hraðra breytinga er hollt að staldra við öðru hverju og gaumgæfa samhengi hlutanna, athuga á hvaða leið við erum, hvernig við tengjum nútíð við fortíð og framtíð. Hvort við leggjum réttar áherslur og hvort við stefnum þangað sem við viljum fara. Í ringulreið og handapati breytingastarfs er stundum hætta á að við ,,fleygjum barninu út með baðvatninu“.
Þið sem takið þátt í þessum vinnudegi eruð flest áhugafólk um nýja upplýsinga- og samskiptatækni og mörg sérfræðingar á því sviði. Þið vitið því betur en ég um þá möguleika sem fólgnir eru í tækninni. Ég þarf ekki að tíunda fyrir ykkur þær breytingar sem upplýsinga- og samskiptatæknin hefur haft á veruleika okkar; lífshætti, samskipti og viðhorf. Á þessum vinnudegi beinum við sjónum að þeim hluta tilveru okkar sem við köllum skólastarf. Hér inni eru margir frumkvöðlar sem reynt hafa möguleika upplýsinga- og samskiptatækninnar í kennslu og námi. Sumir máta tæknina við skólastarfið, aðrir máta skóla við tækniumhverfið. Þegar litið er yfir þá flóru þróunarstarfs í skólum sem á sér stað með aðstoð nýrrar upplýsingatækni er ljóst að sterkir straumar eru í farvatninu og við eigum von á umtalsverðum breytingum á kennsluaðferðum, námsháttum og námsefni og ekki síst viðfangsefnum skólastarfsins.
Ný kennslutækni hefur alltaf stuðlað að breytingum á námsefni skólanna og breyttu kennarahlutverki. Nýja upplýsinga- samskiptatæknin mun veita kennurum og nemendum á komandi árum nýja sýn á kennslu og nám og breyta viðhorfum þeirra til þekkingar og kunnáttu og til samfélagsins í skólunum og utan þess. Eins mun námsefni skólanna, kennsluaðferðir og jafnvel námsgreinar breytast og laga sig að formgerðum upplýsingatækninnar. Spurningin sem svífur yfir þessum vinnudegi er: Hvaða breytingum viljum við stuðla að með notkun nýrra tæknimiðla?
Hér er sjónum sérstaklega beint að kennsluháttum sem rutt hafa sér rúms undanfarin ár, einkum vestan hafs. ,,Flipped classroom“ eða ,,flipped instruction“ er byltingarkennd og áhugaverð aðferð í skólastarfi. Hér á landi er hún er stundum kölluð ,,speglaðir kennsluhættir“, ,,vendikennsla“ eða jafnvel „úthverf kennsla“. Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu á mynd-, hljóð- eða textaformi. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fengið svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt ítarkennsluefni. Kennslustundir í skóla eru svo notaðir til frekari vinnu með námsefnið, samstarfs nemenda og leiðsagnar kennara eftir þörfum.
Vert er að benda á að það er þessi síðastnefndi þáttur ,,speglaðrar kennslu“, vinnan í kennslustuninni sem skapar byltingarkennda möguleika í námi og kennslu. Þar er lögð áhersla á verklegt nám, samvinnu og skapandi starf í samræmi við áhuga og getu hvers nemanda.
Á síðasta ári sótti ég ráðstefnu um kennaramenntun í New York á samt nokkrum skólamönnum. Þar kynnti m.a. ungur frumkvöðull, Salman Kahn, hugmyndir sínar um notkun myndskeiða á vef til að hjálpa fólki að skilja námsefni sem það átti erfitt með að læra. Verkefnið hafði byrjað þegar ung frænka hans bað um aðstoð við að skila stærðfræðidæmi. Þar sem hún bjó í öðru ríki notuðu þau netið til samskipta. Verkefni Kahns byrjaði smátt, en vatt fljótt uppá sig, þegar fleiri fundu vefsvæði hans og tóku að nýta sér það. Umræður sköpuðust á samskiptamiðlum og fleiri tóku að leggja efni í púkkið. Kahn Academy varð til sem vefur með safni námsefnis og líflegum umræðum nemenda, foreldra og kennara. Í fyrra réði svo einn virtasti háskóli heims, MIT í Boston, Salman Kahn til sín til að þróa þetta vefsvæði og þá ,,spegluðu kennslu“ sem fylgdi því og tengja það formlegum námsbrautum sínum.
Hér á landi má finna áhugaverðar tilraunir með kennsluhætti í þessa veru. Keilir hefur verið að feta inn á þetta svið, ýmsar háskóladeildir og nokkrir framhaldsskólar (s.s. Versló, Framh.sk. á Tröllaskaga) hafa reynt að þróa þessar hugmyndir og kennarar á grunnskólastigi (t.d. Félag kennara í upplýsingatækni og Félag náttúrufræðikennara) hafa þreifað sig áfram á þessu sviði.
Mikil deigla er í íslenska skólakerfinu um þessar mundir eins og þið vitið. Fyrir tveimur árum gáfum við út nýjar aðalnámskrár fyrir leikskóla grunnskóla og framhaldsskóla. Í nýju námskránum er boðuð ný menntastefna sem skilgreinir sex grunnþætti menntunar á öllum skólastigum. Þeir eru: Læsi í víðum skilningi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð og sköpun. Í nýju aðalnámskránum er gert ráð fyrir auknu sjálfstæði einstakra skóla og hvatt til frumkvæðis kennara og skólastjórnenda í skipuleggja nám og kennslu með hliðsjón af nýrri menntastefnu og aðstæðum á hverjum stað.
Ljós er að ný upplýsinga- og samskiptatækni skapar fjölbreyta möguleika til útfærslu náms og kennslu. Sú kennslutækni og þeir kennsluhættir sem hér eru til umfjöllunar í dag, spegluð kennsla, hafa augljósa skírskotun til grunnþátta aðalnámskrár og þeirra umbóta í skólastarfi sem ný aðalnámskrá hvetur til.
Þið eigið spennandi vinnu framundan í dag. Möguleikar upplýsinga- og samskiptatækninnar í námi og kennslu eru ótrúlega margir og þeim mun fjölga á komandi árum eftir því sem tækninni sjálfri vindur fram. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nota þá kosti eftir megni, sem nýja tæknin veitir okkur. Við eigum líka að feta þessa nýju stigu varlega, reyna að halda því góða sem við höfum verið að gera í skólunum og þróa það áfram með hjálp tölvu- og upplýsingatækninnar í átt að betri kennslu og betra námi – með það að leiðarljósi að gera góðan skóla betri og auka gæði menntunar í þágu allra.
Gangi ykkur vel.