Grunnskóli Þorlákshafnar fimmtugur
Góðir afmælisgestir, gleðilegt sumar
Ég vil byrja á að óska ykkur öllum til hamingju með daginn. Það er vel við hæfi að halda upp á hálfrar aldrar afmæli Grunnskólans í Þorlákshöfn á sumardaginn fyrsta og fagna um leið vorkomunni. Hálf öld er ekki langur tími í sögu þjóðarinnar en er engu að síður til marks um hversu stutt er síðan skólahald, eins við þekkum í dag, var tekið upp hér á landi. Grunnskólinn í Þorlákshöfn er einn þeirra fjölmörgu skóla sem spruttu upp um land allt -þegar segja má að nútíminn hafi haldið innreið sína hér á landi eftir síðari heimstyrjöldina. Það hefur verið ánægjulegt fyrir mig að fá tækifæri undanfarin ár að heimsækja skóla um land allt og sjá með eigin augum hversu gróskumikið og metnaðarfull starf er unnið á öllum skólastigum. Það hefur verið mér mjög lærdómsríkt. Þrátt fyrir þær þrengingar sem þjóðin er að fara í gegnum hefur verið staðinn vörður um grunnþjónustu samfélagsins, þ.m.t. skyldunámið og þar hafa allir aðilar skólasamfélagsins lagt sitt af mörkum. Segja má að skólar séu hjarta hvers samfélags og þar er lagður grunnur að samfélagi framtíðar og eru jafnframt mikilvægt hreyfiafl.
Eitt af einkennum nútímasamfélags er öflugur grunnskóli eða almenningsskóli í heimabyggð. Þeir aðilar sem stóðu að og leiddu stofnun almenningsskólans og uppbyggingu hans á 20. öldinni gerðu beinlínis ráð fyrir að hin nýja stofnum væri pólitískt og félagslegt hreyfiafl í nýju samfélagi. Almenningsskólinn tók stórstígum breytingum á 20. öld. Forsendur skólahalds eru þó enn þær sömu: Lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og jafnrétti þegnanna. Framsetning þessara grunnþátta menntunar og skólahalds hefur þó breyst og þróast í takt við samfélagsbreytingar og nýja þekkingu. Hugmyndir um lýðræði og jafnrétti hafa breyst, einnig hugmyndir um menntun, þekkingu og hæfni.
Mörg stærstu vandamál samtímans eru þess eðlis að þau munu lenda með auknum þunga á komandi kynslóðum. Félagsleg vandamál verða ekki greind frá efnahagslífi og umhverfismálum. Auka þarf meðvitund unga fólksins um umhverfi sitt og hvernig við stuðlum að sjálfbærri þróun. Við þurfum að gera nemendur dagsins í dag hæfa til að takast á við samfélag framtíðar.
Hver skóli hefur sín sérkenni; sína sögu og menningu. Eins og önnur samfélög breytast skólar, hvort sem við viljum eða ekki. Þróunarstarf er skapandi verkefni kennara, stjórnenda og skólasamfélagsins alls í hverjum skóla. Með þróunarstarfi er ætlunin að gera skólana betri og við sjáum afrakstur þess t.d. í tónlistar- og leiklistarstarfi hér í Þorlákshöfn. Mér er líka kunnugt um ýmis konar þróunarverkefni Grunnskólans í Þorlákshöfn, m.a. við að tengja nemendur betur heimabyggðinni, t.d. með því að taka þátt í að græða landið í verkefninu „Grænir grunnskólafingur græða landið“ og tilraun með stuðning við heimakennslu nokkurra nemenda í sveitarfélaginu.
Ég vil að lokum óska skólanum og samfélaginu til hamingju með hálfrar aldar afmæli skólans og óska ykkur alls hins besta í framtíðinni, minnug þess að það þarf heilt þorp til að ala upp barn.