Veggspjaldasýning á Vísindum á vordögum
Ágætu gestir:
Að fá boð um að ávarpa „Vísindi á vordögum“ á Landspítala er vissulega orðinn einn af vorboðunum í embætti mínu sem mennta- og menningarmálaráðherra, og sannanlega ánægjulegur. Það er gaman að koma hingað á spítalann, ganga í gegnum anddyrið á K byggingunni og sjá öll þessi veggspjöld sem hanga hér uppi og fá þannig að sjá frá fyrstu hendi þá grósku í rannsóknum og vísindastarfi sem á sér stað innan Landspítalans.
Það er tvennt sem mig langar til að nefna hér í dag, það er annars vegar stækkun helstu opinberu rannsóknasjóðanna og hins vegar það að nú hillir loks undir nýjan spítala.
Sú leið sem líklegust er til að hvetja til meira og öflugra vísindastarfs er að auka fé í samkeppnissjóði. Hér á landi fer mun minni hluti opinberrar fjármögnunar rannsókna í gegnum samkeppnissjóði en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar var þessi litið til þessa og ákveðið að auka verulega framlög til stærstu opinberu samkeppnissjóðanna á sviði vísinda og tækniþróunar. Þessu var fylgt eftir með fjárlögum 2013, og alls voru sjóðirnir stækkaðir um sem nemur 1,3 milljörðum króna í ár og sjóðirnir þar með nær tvöfaldaðir. Þó svo að sjóðirnir séu enn tiltölulega litlir í alþjóðlegum samanburð, þá mun þessi innspýting þó ná að rétta af úthlutunarhlutfall í Rannsóknasjóð, sem var eins og þið þekkið orðið afar lágt og ekki unnt að styrkja verðug rannsóknarverkefni. Hér tel ég að því stigið hafi verið afar mikilvægt skref til að efla vísinda og nýsköpunarstarf á grundvelli gæða rannsóknarverkefna . En ekki síður mikilvæg er að með þessu var viðurkennt að það væri hægt að fjárfesta á öðrum sviðum en í áþreifanlegum hlutum, …. að það væri nefnilega hægt að fjárfesta í mannauðinum, sem er okkar mikilvægasta auðlind. Það er von mín að haldið verði áfram á þessari braut, að sjóðirnir verði styrktir enn fremur og þeir enn stækkaðir á næstu árum.
Það er vert að geta nýrrar Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar 2013-2015 sem er nú í undirbúningi. Vísinda – og tækniráð samþykkti á fundi sínum í lok mars að meginmarkmið hennar verði tvíþætt, annars vegar nýliðun í alþjóðlegu samstarfi og hins vegar rafrænir innviðir og hagnýting upplýsingatækni.
Það er líka mikilvægt að minnast á að nú hillir loks undir nýjan spítala. Ég þarf varla að vekja athygli ykkar á því að á síðasta degi þingsins, þann 27. mars sl., voru samþykkt "Lög um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík." Þar með varloks hægt að undirbúa forval vegna hönnunar nýs spítala og í gær var einmitt auglýst eftir umsækjendum til að taka þátt í útboði á hönnun nýrra bygginga sem verða hluti af nýjum Landspítala við Hringbraut. Nýtt sjúkrahús mun ekki eingöngu þjóna umönnun sjúklinga, heldur verður þar 14.000 fermetra rannsóknahúsnæði, sem hlýtur að vera mikið tilhlökkunarefni þeirra sem hér eru. Við vitum vel að þær byggingar sem nýttar eru undir rannsóknastarfsemi á Landspítala eru löngu úr sér gengnar, og hafa verið í bráðabirgðahúsnæði áratugum saman hér vítt og breitt um Landspítalalóðina og víðar í bænum. Með nýjum Landspítala og byggingu fyrir Heilbrigðisvísindadeildir Háskóla Íslands og vonandi Keldna mun skapast mun betri aðstaða og gífurlegir möguleikar á samvinnu rannsóknarhópa og samnýtingu á aðstöðu og tækjum, bæði í þjónusturannsóknum og grunnrannsóknum. Þar munu skapast mikil sóknarfæri í vísindastarfi.
Ágætu vísindamenn á Landspítala, ég óska ykkur til hamingju með afrakstur vísindastarfsins, það er vissulega ástæða til bjartsýnis að líta hér yfir. Ég vona að þið eigið ánægjulegan dag hér í dag.
Ég opna hér með veggspjaldasýningu Vísinda á vordögum 2013.