Ráðstefnan ungt fólk og fjármálalæsi
Það er vel við hæfi að nýta alþjóðlega fjármálalæsisviku að þessu sinni til að beina sjónum að fjármálalæsi ungs fólks sem skiptir miklu máli fyrir samfélagið og velgengni og afkomu einstaklinga bæði til skemmri og lengri tíma litið. Ég vil nota tækifærið og þakka Samtökum fjármálafyrirtækja og Stofnun um fjármálalæsi að standa að þessum viðburði sem m.a. er ætlað að ná til skólasamfélagsins hér á landi, kennaramenntunar, fjármálafyrirtækja og stofnana.
Í vinnu stýrihóps skipuðum af mennta- og menningarmálaráðherra árið 2011 um þriggja ára tilraunaverkefni til að efla fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum kom m.a. fram að nauðsynlegt væri að fjármálalæsi yrði eflt í grunn- og framhaldsskólum og skilaði sú áhersla sér inn í síðustu endurskoðun á aðalnámskrár skólastiganna sem lauk árið 2013 með útgáfu aðalnámskrár grunnskóla í einstökum greinasviðum.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti ákvað síðan árið 2015 að láta gera stöðugreiningu meðal allra grunn- og framhaldsskóla á fjármálalæsi. Markmiðið með könnuninni var að kanna stöðu fjármálafræðslu hjá öllum grunn- og framhaldsskólum, með hvaða hætti skólar vinna að hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla á sviði fjármálafræðslu og hvaða námsgögn eru notuð við kennsluna. Var Stofnun um fjármálalæsi ehf falin framkvæmd könnunarinnar sem gerð var á vorönn 2016.
Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að fjármálalæsi er kennt í flestum skólum eins og aðalnámskrár gera ráð fyrir eða í 87% grunnskóla og 90% framhaldsskóla og oftast sem hluti af námssviðum en ekki sem sérstök námsgrein. Í grunnskólum er algengast að fjármálalæsi sé kennt sem hluti af stærðfræði en í framhaldsskólum er algengast að fjármálalæsi sé hluti af lífsleikni. Þá er langalgengast að kennarar útbúi námsefni sjálfir, en ein helsta hindrunin í vegi fyrir kennslu í fjármálalæsi er talin vera skortur á námsefni. Rúmur þriðjungur svarenda kemur á framfæri athugasemdum eða tillögum til úrbóta um kennslu í fjármálalæsi sem flokka má í þrjá meginflokka: ákall um frekara námsefni, rýmri kennslutíma og athugasemdir er varða stefnumótun. Meðal annars er kallað eftir samráðsvettvangi um kennslu í fjármálalæsi og nokkurs konar vísindagarði þangað sem sækja megi skemmtun og fræðslu.
Skólakerfið gegnir mikilvægu hlutverki í að efla fjármálalæsi ungmenna og aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla gefa skólum ýmis tækifæri til að efla þennan þátt menntunar, m.a. í útfærslu á grunnþáttum menntunar, t.d. læsi og sjálfbærni. Það er einkar mikilvægt að ýmsir aðilar í samfélaginu eru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum til að stuðla að fjármálalæsi hjá ungu fólki. Það er t.d. sérstaklega ánægjulegt að Samtök fjármálafyrirtækja hafa nýtt mannauðinn í fyrirtækjum til að heimsækja langflesta 10. bekki grunnskóla með verkefni sem heitir Fjármálavit og Stofnun um fjármálalæsi hefur einnig lagt sitt af mörkum til eflingar fjármálalæsis ungs fólks með margvíslegum hætti. Skólasamfélagið tekur fagnandi stuðningi af þessu tagi, þ.e. að því gefnu að ekki sé verið að auglýsa sérstaklega þjónustu tiltekinna fyrirtækja en slíkt á ekki erindi inn í skólastarfið.
Ég vil að lokum ítreka þakklæti til þeirra sem standa að fjármálalæsisvikunni og vona að hægt verði að nýta hana markvisst í framtíðinni til að beina sjónum að fjármálalæsi ungs fólks og að samfélagið sem heild leggi sitt af mörkum til að efla þennan mikilvæga þátt læsis meðal fólks á öllum aldri.