Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. apríl 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Opnun skrifstofu Alþjóðlegu Norðurskautsvísindanefndarinnar á Akureyri

Ágæta samkoma, kæru gestir,
Það er mér mikil ánægja og heiður að vera með ykkur hér í dag við formlega opnun skrifstofu Norðurskautsvísindanefndarinnar á Akureyri.
Eins og þið vitið flutti skrifstofa IASC til Íslands frá Potsdam í Þýskalandi í ársbyrjun 2017 (í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands) og verður með starfsaðstöðu hér að Borgum næstu fimm árin (eða til 2021).
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) umsýslu með rekstri skrifstofunnar en Rannís hefur átt aðild að IASC fyrir hönd Íslands frá upphafi. Þegar hafa verið ráðnir tveir starfsmenn til starfa á skrifstofu IASC. Dr. Allen Pope, framkvæmdastjóri og Gunnar Gunnarsson skrifstofustjóri.
Norðurslóðir hafa skipað stóran sess í utanríkisstefnu Íslands á síðustu árum þar sem hornsteinn stefnumótunarinnar er þingályktun Alþingis frá árinu 2011. Þá mun Ísland taka við formennsku í Norðurskautsráðinu árið 2019 til 2021. Það er því mikill styrkur fyrir íslenskt norðurslóðastarf að hafa skrifstofu Norðurskautsvísindanefndarinnar hér meðan á formennskunni stendur.
Það er mér gleðiefni að Akureyri sé að verða eins konar miðja norðurslóðarannsókna ekki bara hér heima heldur einnig á alþjóðavettvangi. Hér fer fram mikil rannsóknarvinna jafnt innan Háskólans á Akureyri, sem Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og annarra rannsóknarstofnanna sem hér eru staðsettar. Þá eru tvær skrifstofur Norðurskautsráðsins (PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) og CAFF (Conservation of Arctic Fauna and Flora)) þegar staðsettar hér fyrir norðan, og Norðurslóðanet Íslands Jafnréttisstofa og Fiskistofa gegna einnig lykilhlutverkum í störfum okkar á norðurslóðum.
Sem hluti af formennskunni Íslands í Norðurskautsráðinu er stefnt að því að halda vísindaviku norðurslóða á Akureyri vorið 2020. Norðurslóðamál verða því ofarlega á baugi Akureyringa og Íslendinga alla næstu árin og vonandi um langa framtíð.
Málefni norðurslóða snerta marga og krefjast víðtæks samráðs ráðuneyta, rannsóknastofna og hagsmunaaðila þvert á landamæri. Reynslan af samstarf í þessum mikilvæga málaflokki, innan lands sem utan, hefur verið afar góð og stuðlað að samvinnu um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum og veitt stjórnvöldum aðildarríkjanna ráðgjöf í öllum þeim mörgu málaflokkum sem fjalla um norðurslóðamál.
Alþjóðastarf er að mínu mati ein af höfuð forsendum öflugrar framþróunar í rannsóknum, nýsköpun, menntun og menningu og er gríðarlega mikilvægt fyrir allt samfélagið og lykilatriði til að takast á við hnattrænar áskoranir nútíðar og framtíðar.
Ágætu gestir,
Megi starfsemi IASC halda áfram að dafna á Íslandi og stuðla að framförum á norðurslóðum á komandi árum. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta