Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. ágúst 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Ársfundur Háskóla Íslands

Góðir gestir, rektor, starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands, það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag á ársfundi skólans.

Eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég settist í stól mennta- og menningarmálaráðherra nú í vetur var að heimsækja Háskóla Íslands. Móttökur voru höfðinglegar og átti ég hér, ásamt starfsfólki úr ráðuneytinu, ánægjulegan eftirmiðdag þar sem mér gafst færi á að hitta og ræða við fulltrúa nemenda, kennara og annars starfsfólks.
Einkum þótti mér áhugavert að hlíða á vísindamenn af ýmsum fræðasviðum segja frá rannsóknum sínum og átti ég við þá gott samtal um stöðu rannsókna í skólanum. Það verður að segjast eins og er að hinn stórgóði árangur Háskólans í rannsóknum á síðustu árum er eftirtektarverður. Stjórnvöld og vísindasamfélagið hér á okkar litla landi – þar sem saga vísindastarfs er mun styttri en víðast hvar annars staðar - mega vera verulega hreykin af því að eiga háskóla á meðal þeirra 250 bestu í heimi, og vísa ég þar í nýjasta lista The Times Higher Education yfir bestu háskóla heims. Eftir því er tekið í erlendum úttektarskýrslum hversu mjög árangur rannsóknarstarfs hefur aukist hér á landi á síðustu árum í samanburði við nágrannaríkin og þeim afburðaárangri sem við Íslendingar höfum náð í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi. Þessa góðu stöðu má ekki síst þakka Háskóla Íslands og þeirri miklu elju og þrautseigju sem starfsmenn skólans hafa sýnt við rannsóknir. Fyrir þetta góða starf bera að þakka.

Við stjórnarskiptin í vetur tók mennta- og menningarmálaráðherra við formennsku í Vísinda- og tækniráði af forsætisráðherra. Þótt ýmsir hafi gagnrýnt þessa breytingu, tel ég að sterk rök séu fyrir henni. Frá því að ráðið var sett á stofn árið 2003 hefur aðkoma mennta- og menningarmálaráðuneytis að starfi ráðsins verið mikil, mun meiri en nokkurra annarra ráðuneyta, enda ber mennta- og menningarmálaráðherra ábyrgð á stefnu stjórnvalda í háskóla- og vísindamálum, a.m.k. að megninu til. Með breytingunni færðum við ráðið nær þeim fagráðuneytum þar sem þekking á rannsóknum, háskólum og nýsköpun er mest. Það er markmið mitt sem formanns Vísinda- og tækniráðs að efla samtal starfsnefnda ráðsins við þau ráðuneyti sem að því koma, og vinna að því að stefna þess endurspeglist með skýrum hætti í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Með þessu móti vil ég stuðla að því að Vísinda- og tækniráð nái þeim markmiðum sem það setur sér.
Nú í júní sl. birti Vísinda- og tækniráð nýja stefnu og gildir hún fyrir árin 2017-2019. Vinnan við stefnuna fór fram í góðu samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, annarra ráðuneyta og undirnefnda ráðsins, en í þeim sitja meðal annars rektor Háskóla Íslands, aðstoðarrektorar og nokkrir aðrir starfsmenn hér við skólann. Vil ég þakka ykkur sem að vinnunni komu fyrir framlag ykkar og faglegt samstarf og er ég sannfærður um að í sameiningu eigum við eftir að ná góðum árangri við að hrinda stefnunni í framkvæmd.
Gæði og árangur eru leiðarstef í stefnu Vísinda- og tækniráðs. Við viljum leggja aukna áherslu á forgangsröðun í rannsóknum og nýsköpun með því að skilgreina þær helstu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á næstu árum og áratugum. Með því að beina sjónum okkar að samfélagslegum áskorunum getum við eflt þverfaglegt samstarf um þær og ýtt með markvissari hætti undir nýsköpun sem skilar samfélagslegum ávinningi. Skýrari forgangsröðun gefur okkur auk þess meiri slagkraft í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir og þróun og styður við markmið um eflingu rannsóknarinnviða. Forgangssviðin verða skilgreind í samráði við almenning og hagsmunaaðila og verða Markáætlun á sviði vísinda og tækni og Innviðasjóður nýtt til að fjármagna verkefni í samræmi við forgangssviðin. Við munum áfram standa vörð um opna fjármögnun án sérstakrar forgangsröðunar í gegnum Rannsóknasjóð.
Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs tekur einnig til fjármögnunar háskólanna en um hana hefur mikið verið rætt undanfarin misseri. Í stefnunni eru sett fram skýr markmið um fjármögnun háskólakerfisins á næstu árum og er það vilji minn að eiga samtal við háskólana um það hvernig unnt verði að ná settum markmiðum, samhliða því sem við mótum skýrari framtíðarsýn fyrir háskólakerfið allt, og leitum leiða til að efla það.

Góðir gestir.
Ég tek heilshugar undir yfirskrift þessa ársfundar: að rannsóknir eru undirstaða nýsköpunar og þekking drifkraftur framfara. Stundum er talað um samfélag nútímans sem þekkingarsamfélag ( - knowledge society). Í þekkingarsamfélaginu skipa rannsóknir, tækni og nýsköpun veigameira hlutverk sem aflvakar velsældar og hagþróunar en áður var. Við þurfum að halda áfram að styrkja stoðir þekkingarsamfélagsins Íslands. En ef við ætlum okkur að tala um framfarir í þessu samhengi, tel ég að það skipti líka miklu máli að huga að því hvernig við stöndum að því að færa Ísland inn í framtíðina. Það er mér hjartans mál að við höldum áfram að skapa þekkingu og nýta tækni á tungumálinu okkar, íslensku.
Þótt við sem hér sitjum séum orðin allvön miklum tæknibreytingum í daglegu lífi á undanförnum árum, segja vísir menn mér að hraði slíkra breytinga fari síst minnkandi á næstu árum. Það er ljóst að í framtíðinni verður tungumálið sífellt meira notað í samskiptum við tæki og tækni t.d. með meiri notkun þýðingarvéla, talgervla og ýmiss samskiptahugbúnaðar. Ég tel að það skipti lykilmáli að tryggja að íslensk tunga sé þátttakandi í þessum breytingum og að hún verði fullgilt tungumál í hinum stafræna heimi.
Til að okkur takist það verðum við að taka höndum saman. Ábyrgðin er ekki bara hjá stjórnvöldum, hún liggur hjá okkur öllum: í fyrirtækjum, stofnunum og hjá einstaklingum. Einnig hér hjá Háskóla Íslands sem er, ásamt Stofnun Árna Magnússonar, þungamiðja rannsókna á íslenskri tungu í heiminum.
Á næstu vikum mun Rannís auglýsa markáætlun til að efla stöðu íslenskrar tungu í tölvu og tækni. Markmið hennar verður að efla þverfaglegar rannsóknir og nýsköpun til að stuðla að því að íslenska verði lifandi tungumál í samskiptum með atbeina tækni. Markáætlunin er eitt skref í áttina að markmiðinu, en ljóst er að mun meira þarf til ef við ætlum að ná árangri. Í júní var birt á vegum ráðuneytisins máltækniáætlun fyrir íslensku þar sem sett er fram verkáætlun fram til ársins 2022 og er mikilvægt að hún komist til framkvæmda.

Góðir gestir.
Haustið, þegar fólk snýr aftur til vinnu eftir sumarleyfi, er líflegur tími á flestum vinnustöðum, en sennilega hvergi jafn líflegur og hér í stærsta skóla landsins. Hér munu nú gangarnir brátt að fyllast af áhugasömum nemendum og starfsfólk vinnur að líkindum af fullu kappi af því að skipuleggja starfsemi vetrarins. Ég vil óska ykkur öllum velfarnaðar á komandi skólaári og vil undirstrika þá ósk mína að Háskólinn haldi áfram að eflast og styrkjast og verði áfram virkur þátttakandi í íslensku samfélagi og menningarlífi.
Ég læt þetta verða lokaorðin og óska ykkur ánægjuríks fundar hér í dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta