Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. september 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Málþing um framhaldsfræðslu

Ágætu málsþingsgestir.

Framhaldsfræðslu hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum með öflugu starfi símenntunarstöðva víðs vegar um land og starfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins allt frá stofnun hennar árið 2002. Stjórnvöld hafa átt sinn þátt í að skapa skilyrði fyrir vexti þessa starfs með fjárframlögum og með því að marka því bás í hinu menntapólitíska samhengi. Þetta var staðfest með setningu laga um framhaldsfræðslu árið 2010.
Frá því að frumvarp til laga um framhaldsfræðslu var fyrst lagt fram í desember 2008 hefur mikið vatn runnið til sjávar og ýmsar breytingar hafa átt sér stað í samfélaginu, á vinnumarkaði og í menntamálum. Við teljum því þarft að staldra við, líta yfir farinn veg og meta reynsluna af starfinu hingað til.

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu stendur yfir vinna við undirbúning að endurskoðun laga um framhaldsfræðslu. Að störfum er verkefnishópur og með honum starfar ráðgjafi.
Það er eðlilegt að þegar rætt er um endurskoðun gildandi laga leggi menn við hlustir og verði jafnvel varir um sig og ég legg áherslu á að ekki verður farið í þetta verkefni í neinum flýti. Við ætlum að taka okkur þann tíma sem þarf til þess að fara yfir lögin í samstarfi og samráði við hagsmunaaðila, og komast að skynsamlegri og viðunandi niðurstöðu. Skipaðir verða nokkrir samráðshópar með öllum helstu hagsmunaaðilum og settur verður upp samráðsvettvangur þar sem tækifæri mun gefast til að koma athugasemdum á framfæri. Strax á nýju ári mun ráðuneytið gera grein fyrir hvernig staðið verður að málum og kalla fólk að borðinu. Reiknað er með að vinnunni við endurskoðun laganna verði lokið á næsta ári.

Meðal þess sem sjónir beinast að er markhópurinn og hvernig eðlilegt er að skilgreina hann. Við teljum tilefni til þess að taka til athugunar viðurkenningu fræðsluaðila og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra, svo sem um umfang starfsemi og gæðakerfi. Þá hafa úthlutunarreglur og skilmálar Fræðslusjóðs borið á góma. Annað sem komið hefur til tals eru námskrár framhaldsfræðslu, aldursmörk markhópsins, eftirlitsskylda ráðuneytisins, hlutverk Menntamálastofnunar, íslenskukennsla fyrir innflytjendur og nám fyrir fatlað fólk.
Við höfum jafnframt því sem ég hef nefnt velt fyrir okkur skilgreiningum lykilhugtaka svo sem fullorðinsfræðlsu og framhaldsfræðslu.

Mér finnst gott að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur á þessu málþingi, sem fjallar einmitt um nýjar áskoranir í framhaldsfræðslu og um aukna starfshæfni á vinnumarkaði. Mikilvægt er að taka nýjar hugmyndir og ný úrlausnarefni inn í þá umræðu svo endurskoðun laganna endurspelgi sem best þróunina á þessum vettvangi.

Ágætu málþingsgestir
Ég þakka ykkur fyrir mikilvægt framlag til fræðslu fullorðinna. Ég óska ykkur alls hins besta í störfum ykkar hér í dag og vonast til að eiga við ykkur gott og farsælt samstarf.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta