Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. september 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Menningarlandið 2017 - barnamenning

Kæru gestir,
verið velkomin á Menningarlandið 2017, ráðstefnu um barnamenningu þar sem áhersla er á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Það er virkilega gaman að sjá hvað það eru margir sem hafa áhuga á menningu barna og ég tala nú ekki um að koma í þennan fallega heimabæ minn í mynni Svarfaðardals.

Frá árinu 2001 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti í samstarfi við ráðuneyti byggðamála, Samband íslenskra sveitarfélaga og menningarráð landsbyggðanna staðið fyrir Menningarlandi á ýmsum stöðum á landinu.

Stefnumótun í menningarmálum á landsbyggðinni, mótun menningarstefnu ríkisins, menningarsamningar og tölfræði menningar eru meðal þeirra málefna sem rædd hafa verið á síðustu fimm ráðstefnum. Í ár er komið að því að ræða um barnamenningu.

Aðalmarkmið þessarar ráðstefnu er að efla barnamenningu í landinu og stuðla að auknum tengslum milli þeirra sem vinna að menningu barna á mismunandi sviðum og út frá mismunandi forsendum.

Því hefur verið fleygt að menning geymi sjálfsmynd þjóðar. Menning er síkvik framþróun sem fléttar saman fortíð, nútíð og framtíð. Seint verður því ítrekað nægilega mikilvægi þess að börn og ungmenni fái ríkuleg tækifæri til að kynnast menningu og listum því sannleika listarinnar þarf ekki að rökstyðja. Listin gagnrýnir og hvetur, hneykslar og hrífur. Þessu til viðbótar má vitna í orð Þorsteins Gylfasonar sem sagði að menning væri að vanda sig. Ef ekki er tilefni til að vanda sig þegar börn og menning eru til umfjöllunar þá veit ég ekki hvar það ætti að vera.
Listina er oft erfitt að skilgreina því hún er síbreytileg og endurspeglar lífið í kringum okkur, tíðarandann, smekk og fagurfræðileg viðmið. Listin er þessi leit að fegurð, leit að eðli hlutanna, tilfinninga og hugmynda og sem slík er hún líka mikilvæg fyrir okkur, hvernig við skiljum og upplifum veröldina.

Við erum farin að átta okkur á því að listir og menning eru mikilvægar burðarstoðir samfélagins, afl sem bindur okkur saman og því
getum við verið sammála um að menningarlæsi og menningarþátttaka er mikilvægt í uppvexti barna og unglinga.

Á mínum uppvaxtarárum hér í Svarfaðardal var mikið af menningarviðburðum í boði enda dalurinn þekktur fyrir að ala af sér afburða söngfugla. Sérstakir menningarviðburðir ætlaðir börnum er önnur saga fyrir utan auðvitað sögurnar af Gísla, Eiríki og Helga:

Betur en viskan djúp og döpur
dæmi flónsins oft er þegið.
Gott er að eiga Bakkabræður
bara til að geta hlegið.

Hægt er að fullyrða að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrsta opinbera barnaleiksýningin var sett upp á Íslandi árið 1916. Fyrir áhugasama var það sænska leikritið Óli smaladrengur sem sýnt var í Iðnó.
Barnamenning er víðtækt hugtak og ekki er alltaf ljóst hvað átt er við með því. Barnamenning er yfirleitt skilgreind á þrjá vegu:
Menning fyrir börn, þar sem börn eru óvirkir þátttakendur og njóta listupplifunar sem búin er til fyrir börn s.s tónleikar og leikhús.
Menning með börnum, þar sem barnið og hinn fullorðni upplifa menningu saman, s.s ýmis konar listasmiðjur.
Menning sköpuð af börnum, sem er leikjamenning barna.

Á síðustu árum hefur átt sér stað vitundarvakning í verkefnum tengdum barnamenningu. Lista- og menningarstofnanir hafa í auknum mæli sérstaka fræðsluáætlun fyrir börn og ungmenni. Barnamenningarhátíðum fjölgar um allt land en það eru einungis sjö ár síðan fyrsta hátíðin, Barnamenningarhátíð í Reykjavík, fór fram.

Þátttaka ykkar hér sýnir áhuga og vilja til að efla menningarstarf fyrir börn um allt land. Eitt af meginmarkmiðum menningarstefnu stjórnvalda og aðgerða ríkisins á sviði menningar og lista er að auðvelda öllum landsmönnum, konum og körlum og auðvitað börnum að njóta menningar og lista og jafna og bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi í landinu. Samþykkt hefur verið og hrint í framkvæmd aðgerðaráætlun um menningu barna og ungmenna 2014–2017, m.a. með barnamenningarverkefninu List fyrir alla sem þið fáið að heyra betur um hér á eftir. Ég vil þó segja að verkefnið á að tryggja öllum börnum og ungmennum á Íslandi aðgang að vönduðum menningarviðburðum óháð efnahag eða búsetu. Á tíu ára grunnskólagöngu er stefnt að því að nemendur kynnist fjölbreyttum listformum, en áherslan hvílir annars vegar á þverfagleika og samspili listgreina og hins vegar á viðtökum, upplifun og túlkun listar og menningar.

Að lokum vil ég flytja ljóðið Rugludallur eftir Þórarinn Eldjárn, ekki til að rugla ykkur í ríminu, heldur til að ýta undir þessa litlu vöðva í kringum munnvikin sem kallast bros. Ég vona að samveran hér stuðli að auknum tengslum ykkar á milli og að þið eigið eftir að eiga góðar og skapandi samræður hér á Dalvík.

Ljóðið hljóðar svona:

Rugludallur ruglar allt
ruglar mjólk og lími,
kaffi saman við kók og malt
og krakkana í rími.

Ruglast á fólki og ruglar það
með rugli veslings kallinn.
Orðin hakkar öll í spað
ofan í rugludallinn.

Rugludallur það ert þú
sem þylur mér í eyra.
Rugludallur reyndu nú
að rugla ekki meira!

– Virðulega vitra frú,
var það nokkuð fleira?

Gangi ykkur vel.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta