Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. september 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKristján Þór Júlíusson

Ársfundur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Góðir gestir, forstöðumaður og starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Í mínum huga eru það bæði forréttindi og heiður að fá tækifæri til að sitja þennan ársfund Stofnunar Árna Magnússonar og heyra af viðamikilli og fjölbreyttri starfsemi sem hér er unnin af metnaði. Íslensk tunga og framtíð hennar eru mér afar hugleikin og mun ég leggja á það áherslu í starfi mínu sem ráðherra tungunnar að efla stöðu íslenskunnar á grundvelli íslenskrar málstefnu. Verkefnið nálgast ég af virðingu og auðmýkt.

Þegar kemur að framtíð íslenskrar tungu blasa við okkur fjölmargar áskoranir. Ljóst er að tækni skipar æ stærri sess í daglegu lífi og samskiptum fólks á milli og mun þessi þróun að líkindum færast í aukana á næstu árum. Því er spáð að tungumálið verði sífellt meira notað í samskiptum við tæki og tækni, t.d. með aukinni notkun þýðingarvéla, talgervla og ýmiss samskiptahugbúnaðar. M.a. er gert er ráð fyrir að í náinni framtíð komi á markað tölvur sem geti skilið og brugðist við flóknum fyrirskipunum.

Á síðustu árum hefur íslenskan því miður dregist aftur úr á mörgum sviðum upplýsingatækninnar og mikið af hugbúnaði sem notaður er dags daglega er eingöngu notaður á ensku eða öðrum erlendum tungumálum. Ég tel það skipta okkur afar miklu máli að tryggja að íslenskan verði fullgilt tungumál í hinum stafræna heimi, eigi hún að vera lífvænleg þjóðtunga til framtíðar. Efling íslenskrar máltækni verður því forgangsverkefni og grunnþáttur í framkvæmd íslenskrar málstefnu næstu 3-5 ár.

Til að okkur takist það verðum við að taka höndum saman. Ábyrgðin er ekki bara hjá stjórnvöldum, hún liggur hjá okkur öllum: í fyrirtækjum, stofnunum og hjá einstaklingum. Ég veit af og skynja mikinn áhuga og vilja til þátttöku hér í Árnastofnun og þakka af alhug fyrir það.

Eins og fram kom í máli Birnu Óskar hefur eitt mikilvægt skref þegar verið stigið nú í sumar með útgáfu skýrslna um máltækni sem unnar voru var á vegum ráðuneytisins. Er hér um að ræða fjárhags- og verkáætlun til fimm ára auk skýrslu starfshóps um stöðu og framtíð menntunar á sviði máltækni fyrir íslensku. Það ánægjuefni að sjá hversu gott samstarf hefur verið í þessari vinnu, en að henni koma stofnanir, háskólar auk Samtaka atvinnulífsins, sem sýnt hafa verkefninu mikinn áhuga.

Ég mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar svo hægt verði að vinna markvisst að því að fylgja máltækniverkefninu eftir og að verkáætlunin nái fram að ganga. Velvilja gætir í garð verkefnisins í samfélaginu almennt sem og innan Alþingis og ríkisstjórnar. Máltækniáætlunin var lögð fram fyrri hluta sumars þegar búið var að samþykkja fjármálaáætlun og vinna við fjárlög var langt komin. Því var vandkvæðum bundið að fjármagna verkefnið með afgerandi hætti á næsta ári. Unnið er að því hörðum höndum að vinna verkefninu brautargengi og ég er bjartsýnn á að þetta verkefni fari af stað af fullum krafti á nýju ári. Hér er ekki um enn eina skýrsluna að ræða sem lítið verður gert með.

Íslensk tunga í heimi tækninnar er einnig eitt af áherslumálum Vísinda- og tækniráðs þar sem mér var falin formennska s.l. vor en ný stefna ráðsins var samþykkt í júní.
Í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 undir markmiðinu « Öflug þátttaka í þekkingarsamfélaginu » fellur sú aðgerð að auglýst verði markáætlun til þriggja ára til að efla stöðu íslenskrar tungu í tölvum og tækni. Í stefnunni er þetta m.a. afmarkað nánar en þar segir:
Til þess að tryggja sess íslensks máls og samræma tækni tungumáli okkar þarf að fjárfesta í rannsóknum á máltöku og íslensku, tengslum tæknivæðingar og málsins, máltækni og tengdum viðfangsefnum. Nauðsynlegt er að vinna markvisst að þróun aðferða til að gera möguleg og auðveld samskipti við nýja tækni á íslensku, þ.m.t. að framtíðartækni „skilji“ og „tjái sig“ á íslensku. Í þessu samhengi er mikilvægt að huga að þáttum eins og áhrifum tækni á máltöku og málvitund barna, þróun námsefnis í íslensku og áhrifum tækni á tungumálið.
Það er ákvörðun Vísinda- og tækniráðs að markáætlun um tungu og tækni skuli skiptast í tvo hluta:
1. Rannsóknartengd máltækniverkefni eða uppbygging rannsóknarinnviða á sviði máltækni í samræmi við verkefnaáætlunina „Máltækni fyrir íslensku 2018-2022.“
Um er að ræða verkefni sem rúmast innan verkefnaáætlunarinnar „Máltækni fyrir íslensku 2018-2022“.
Til rannsóknarinnviða teljast sérhæfður tækjabúnaður (eða tækjasamstæður), skjala- og gagnasöfn, rafrænir innviðir, samskiptanet og önnur tæki sem geta nýst til eflingar á rannsóknastarfi og einnig oft nýsköpunarstarfi.
Gera skal kröfu um opinn aðgang að rannsóknarinnviðum sem hljóta styrk úr áætluninni.
2. Samstarfsverkefni um íslenska tungu í tæknivæddum heimi
Þar er um að ræða rannsóknarverkefni um tengsl íslenskrar tungu og tækni daglegs lífs og er þá einkum átt við að hugað skuli að „áhrifum tækni á máltöku og málvitund barna, þróun námsefnis í íslensku og áhrifum tækni á tungumálið.“

Góðir gestir
Eins og Halldóra Jónsdóttir fjallaði um hér áðan var vefgáttin málið.is opnuð í október árið 2016. Markmið vefsíðunnar er að auðvelda okkur – notendum íslenskunnar – að finna upplýsingar um tungumálið og málfar. Ég vil hrósa þeim sem komið hafa að þessu mikilvæga verkefni. Það skiptir miklu að gagnasöfn sem gerð eru fyrir opinbert fé séu í opnum aðgangi og nýtist þannig samfélaginu öllu. Þetta á ekki síst við um gagnasöfn í svo litlu málsamfélagi sem íslenskan er. Það er brýnt að Íslendingar og þeir sem stunda nám í íslensku geti nálgast upplýsingar um tungumálið og málfar á sem einfaldastan máta – eingöngu með því að grípa í símann eða spjaldtölvuna. Við verðum að reyna að hrinda úr vegi öllum hindrunum á þessu sviði og stefna að því að fjölga gagnasöfnum í opnum aðgangi.

Eitt af stóru málunum í tengslum við Stofnun Árna Magnússonar á undanförnum árum hafa verið húsnæðismál stofnunarinnar. Það liggur nú fyrir að framkvæmdir við hús íslenskunnar hefjist innan skamms og er það mikið gleðiefni fyrir mig og vonandi alla sem hér eru. Uppbyggingin sem fer í hönd felur í sér margvísleg tækifæri og mun ekki síst renna styrkari stoðum undir hlutverk stofnunarinnar á sviði miðlunar á bókmennta- og sagnaarfi þjóðarinnar. Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að endurhönnun hússins með tilliti til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað frá því það var fyrst hannað. Nú í haust verður verkið boðið út og má þá gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist um eða upp úr áramótum.
Einnig vil ég nefna við þetta tækifæri að fjárlagafrumvarp næsta árs í fjárlagatillögu ráðuneytisins til Alþingis fyrir árið 2018 er farið fram á auknar fjárheimildir til Árnastofnunar með það að markmiði að unnt verði að ráða í 2 lögbundnar stöður, kenndar við Sigurð Nordal og Árna Magnússon, sem því miður hefur ekki verið unnt að halda úti um nokkurt skeið. Að auki er gert ráð fyrir því að Stofnun Árna Magnússonar fái heimild til að ráða í eina stöðu í upplýsinga- og tæknideild m.a. til að styðja við hlutverk stofnunarinnar á sviði máltækni.

Að endingu vil ég nota tækifærið til að þakka stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir langt og gott samstarf í tengslum við dag íslenskrar tungu en ráðuneytið hefur um árabil notið aðstoðar stofnunarinnar við undirbúning og framkvæmd viðburða í tengslum við daginn. Á grunni þess góða samstarfs er nú verið að kanna hvernig stofnunin getur aðstoðað ráðuneytið við innleiðingu á samningi UNESCO um menningarerfðir eða óáþreifanlegar menningarminjar.

Bestu þakkir og óska ég ykkur heilla í verkefnum ykkar framundan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta