Ávarp ráðherra við setningu Menningararfsárs Evrópu 2018
allt frá 1983 hefur á vettvangi Evrópusamvinnu sérstök áhersla verið lögð á ákveðinn málaflokk, til að vekja athygli á mikilvægi hans í samfélagi manna. Svo dæmi séu tekin var 1985 helgað tónlistinni, 1990 var helgað ferðamennsku, 2001 tungumálum og 2011 mikilvægi sjálfboðaliðastarfs.
Árið 2018 hefur verið útnefnt „Menningararfsár Evrópu.“ Á menningararfsárinu fer fram fjöldi viðburða sem einblína á evrópsk tengsl og sameiginlegan menningararf okkar. Meginþemað er gildi menningararfsins fyrir einstaklinga og samfélög. Á Íslandi hefur verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á strandmenningu. Undir hana geta fallið handverk, fornleifar, hús og mannvirki, gripir, bátar, sögur og ótal margt fleira.
Orðið menningararfur er okkur tungutamt í dag, en það er ekki gamalt í málinu. Mér er sagt að það hafi fyrst birst á prenti árið 1923. Það er skemmtilegt og lýsandi að það var blaðið Lögberg, sem Vestur-Íslendingar gáfu út í Kanada – og gefa reyndar enn út, sem færði okkur þetta orð. Á þeim tíma var það Íslendingum, sem flust höfðu búferlum til Vesturheims og niðjum þeirra, mjög ofarlega í huga hverjir þeir væru í raun og veru, hvernig arfinum að heiman, tungu, bókmenntum og sögu, mundi vegna í nýja heiminum.
Menningararfurinn var ríkur þáttur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, þó orðið væri ekki notað, en forystumenn okkar í þeirri baráttu sóttu rök fyrir rétti þjóðarinnar til að standa á eigin fótum til tungumálsins, sem væri sér á báti, og sagnaritunar, sem ætti sér ekki hliðstæðu. Aðrar þjóðir hafa einnig sótt rök fyrir fullveldi sínu og sjálfstæði til tungu sinnar og menningar.
Enn í dag má það heita ríkjandi skoðun að tungumálið, sem hér hefur verið talað frá upphafi byggðar, og þau menningarlegu afrek, sem óumdeilt er að forfeður okkar unnu á blómaskeiði sagnaritunar á miðöldum, séu kjölfestan í menningararfi okkar. Og að um leið sé þetta eitt merkasta framlag okkar til að auðga heimsmenninguna.
Með tímanum hefur hugtakið menningararfur orðið miklu víðtækara en áður. Það nær til allra greina menningarlífsins og listanna, en það nær einnig til gömlu húsanna okkar, til manngerðs umhverfis af ýmsu tagi, til verkfæra og verkmenningar fyrri tíðar, til örnefna, þjóðsagna, þjóðsiða og þjóðtrúar svo nokkuð sé nefnt.
Það er mikilvægt verkefni að rannsaka menningararf okkar, en ekki síðra verkefni að varðveita hann fyrir komandi kynslóðir og varðveita heimildir um hann og minjar. Og loks þarf að miðla upplýsingum um menningararfinn, um rannsóknir á honum og um varðveislu hans fyrir komandi kynslóðir. Miðlunin er forsenda þess að hægt sé að skapa skilning á gildi menningararfsins og afla aukins fjár til að sinna verkefnum, og því skiptir miklu máli hvernig til tekst á þessu sviði.
Það er ekki hægt að fjalla um miðlun menningararfs hér á landi án þess að ræða tengsl þeirrar starfsemi við einn mesta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi, þ.e. ferðaþjónustuna. Ferðaþjónusta er blómleg atvinnugrein á Íslandi eins og í öðrum löndum, þar sem menningartengd ferðaþjónusta er einnig ofarlega á dagskrá. Og hér á landi hefur ferðaþjónustan sýnt ræktun menningararfsins vaxandi áhuga, enda er menningararfurinn eitt af því sem dregur erlenda ferðamenn til landsins, og dýpkar áhuga innlendra ferðamanna á að kynna sér eigið land og sögu. Ég fagna þessum áhuga og tel að við höfum gagnkvæmra hagsmuna að gæta.
Góðir gestir,
mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Minjastofnun Íslands að sjá um skipulagningu menningararfsársins fyrir hönd stjórnvalda, og sér Minjastofnun því um að veita upplýsingar um árið, halda utan um og samhæfa dagskrá. Ákveðið hefur verið að hér á landi skuli sérstök áhersla lögð á strandmenningu í dagskrá ársins.
Ég hlakka til að kynnast betur þeirri dagskrá sem verður boðið upp á af þessu tilefni, og lýsi Menningararfsár Evrópu 2018 hér á Íslandi nú formlega hafið.
Takk fyrir.