Sögulegir Vetrarólympíuleikar 2018
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. febrúar 2018
Vetrarólympíuleikarnir hefjast í dag í Pyeongchang í Suður-Kóreu. Þetta er í tuttugasta og þriðja sinn sem leikarnir eru haldnir en þeir fyrstu voru í Chamonix í Frakklandi árið 1924. Mikil eftirvænting er í loftinu vegna leikanna um allan heim. Máttur íþrótta er mikill og þær eru mikið sameiningarafl. Mikilvægi Ólympíuleikanna er ótvírætt og má segja að merki leikanna, hringirnir fimm, lýsi tilgangi þeirra nokkuð vel. Hringir tákna samband þeirra fimm heimsálfa sem taka þátt í starfi Ólympíuhreyfingarinnar og það mikla mannamót íþróttafólks frá öllum heimsins hornum á leikunum sjálfum. Allur heimurinn sameinast til þess að fylgjast með leikunum og hvetja áfram sína keppendur með ráðum og dáð. Marga dreymir að komast á leikana sem þátttakendur.
Við Íslendingar munum ekki láta okkar eftir liggja á þessari miklu íþróttahátíð. Að þessu sinni taka fimm keppendur þátt fyrir hönd Íslands en það eru þau Elsa Guðrún Jónsdóttir, Snorri Einarsson og Isak S. Pedersen, keppendur í skíðagöngu, Freydís Halla Einarsdóttir og Sturla Snær Snorrason keppa bæði í svigi og stórsvigi. Að baki þátttöku þeirra á Ólympíuleikunum liggja þrotlausar æfingar, oft fjarri fjölskyldu og vinum. Við ykkur vil ég segja til hamingju með þennan mikla árangur að hafa náð inn á Ólympíuleikana, þið eruð fyrirmyndir fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk.
Að þessu sinni eru Vetrarólympíuleikarnir í Pyeongchang sögulegir, þar sem að ríkin tvö á Kóreuskaga munu mynda sameiginlegt lið í íshokkí kvenna en það er í fyrsta sinn síðan Kóreustríðið var háð. Að auki er þátttaka Norður-Kóreu í leikjunum mun meiri en í fyrstu var ráðgert. Vegna þessa er að skapast ákveðin von í hugum margra í Suður-Kóreu að þetta sé upphafið að þýðu í samskiptum ríkjanna. Ólympíuleikar hafa í sögunni oft haft jákvæð áhrif á þjóðríki, sem dæmi má nefna að sumarólympíuleikarnir í Séul í Suður-Kóreu árið 1988 urðu til þess efla lýðræði og efnahagslega framþróun í landinu. Íbúar Suður-Kóreu minnast því leikanna með miklum hlýhug vegna þeirrar jákvæðu þróunar sem þeir leiddu af sér. Sumarólympíuleikarnir 1964 voru haldnir í Japan. Stjórnvöld lögðu mikinn metnað í leikana og í kjölfarið komst á betra jafnvægi í samskiptum þeirra og annarra lykilaðila í alþjóðlegum samskiptum.
Íbúar Suður-Kóreu eru hóflega bjartsýnir á jákvæða framvindu í samskiptum ríkjanna í kjölfar Ólympíuleikanna en hins vegar er það svo að ákveðin von hefur skapast í anda leikanna. Enn á ný sannast mikilvægi íþróttanna í alþjóðasamvinnu og vonandi verður þetta vísirinn að hverju góðu.