Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMennta- og menningarmálaráðuneytið

Menntun fyrir alla á Íslandi

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu, 14. apríl 2018.
Til grundvallar þeirri menntastefnu sem lögfest er á Íslandi er það mannréttindasjónarmið að allir fái jöfn tækifæri til náms. Frá árinu 2008 hefur menntalöggjöf á Íslandi miðað að því að stuðlað sé að þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemenda nám við hæfi. Víðtækt samstarf hefur verið milli ríkis og sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila skólasamfélagsins um þessa stefnu. Í framhaldi af viðamikilli úttekt á framkvæmd stefnunnar árið 2015 er nú komið að næstu skrefum er styðja munu við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Stofnaður var stýrihópur verkefnisins undir forystu mennta- og menningarmálaráðuneytis með þátttöku allra samstarfsaðila úttektarinnar og hefur hann unnið að sjö skilgreindum markmiðum um áframhaldandi þróun menntastefnunnar. Í stýrihópnum sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Skólameistarafélags Íslands og Heimilis og skóla. Í gær, föstudaginn 13. apríl, var undirrituð endurnýjun samstarfsyfirlýsingar þessara aðila en auk þess bættust í hópinn; fulltrúi frá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti og fulltrúi frá Háskóla Íslands, fyrir hönd kennaramenntunarstofnana landsins. Þá var einnig opnaður nýr vefur fyrir þetta verkefni en á síðunni www.menntunfyriralla.is geta allir áhugasamir kynnt sér málið betur og fylgst með þróun þess.

Meðal helstu styrkleika íslenska menntakerfisins samkvæmt fyrrgreindri úttekt er að það hvílir á sterkum grunni laga og stefnumótunar er varða réttindi nemenda. Mörg verkefni eru þó enn óunnin en besti árangurinn mun nást með góðri samvinnu. Vitað er að skólastjórnendur og starfsfólk skólanna telja margir að standa þurfi betur að framkvæmd stefnunnar og verja til hennar meira fé; tryggja faglegan stuðning og efla rannsóknarstarf. Það sjónarmið kennara að stefnunni fylgi meira vinnuálag og þeir hafi ekki fengið nægan undirbúning til að bregðast við álagi vegna fjölbreyttari nemendahópa er einnig þekkt og mikilvægt að brugðist sé við því. Við vitum að stuðningur við kennara skilar sér margfalt út í skólastarfið og mikilvægi stoðþjónustunnar, ekki síst á fyrstu stigum skólagöngunnar er ótvírætt.

Það er mikil og jákvæð umræða um menntamál á Íslandi og það er vel. Núverandi ríkisstjórn hefur sett menntamálin á oddinn og þær áherslur má til að mynda vel sjá í nýsamþykktri fjármálaáætlun. Öflugt skólastarf mun skila okkur farsæld til framtíðar. Gott samstarf, upplýstar ákvarðanir og þrek til að framkvæma og vinna sameiginlega að breytingum er leiðarljós okkar sem viljum þróa íslenska menntastefnu til framtíðar.






Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta