Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. apríl 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytiðMennta- og menningarmálaráðuneytið

Fjölgum fjársjóðum

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. apríl 2018.

Ein af þeim áskorunum sem við tökumst á við um þessar mundir er að almennu læsi ungmenna hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði. Það er skoðun mín að framboð barna- og unglingabóka á íslensku skipti máli í þessu samhengi. Það eru sóknarfæri til að gera betur í þeim efnum.
Á verðlaunahátíð barnanna, Sögum, um liðna helgi kynnti ég aðgerðir til umbóta. Það var ánægjulegt að geta þar greint frá nýjum styrkjaflokki fyrir barna- og unglingabækur sem verður bætt við bókmenntasjóð Miðstöðvar íslenskra bókmennta á næsta ári. Markmið hans er að styðja við ritun barna- og unglingabóka á íslensku og auka framboð af vönduðum bókmenntum fyrir þessa aldurshópa.

Það er vitundarvakning um þessi mál samhliða aukinni þjóðfélagsumræðu um menntamál. Það er ljóst að það er vilji til að gera betur í þessum efnum. Til að mynda efndu nemendur í Hagaskóla til málþings í vetur undir yfirskriftinni „Barnið vex en bókin ekki“. Þar kom fram að þau teldu áhuga barna og ungmenna á bókmenntum vera til staðar. Skólafólk, foreldrar og rithöfundar hafa einnig kallað eftir aðgerðum til þess að efla megi útgáfu barna- og unglingabóka hér á landi. Í skýrslu starfshóps um bókmenningarstefnu var meðal annars bent á að efla þyrfti útgáfu barna- og unglingabóka með sérstöku tilliti til myndskreyttra bóka og léttlestrarbóka. Það slær í takt við stefnu mína sem mennta- og menningarmálaráðherra.
Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til þess að efla læsi í landinu er að tryggja gott aðgengi barna og ungmenna að bókum.

Læsi barna er samvinnuverkefni samfélagsins alls. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi og nauðsynleg til að hver og einn geti nýtt hæfileika sína til fulls. Bókmenntir er samofnar sögu okkar og við ætlum í sameiningu að tryggja að svo verði áfram. Nýju barna- og unglingabókastyrkirnir eru liður í því að fjölga þeim fjársjóðum sem íslenskar bókmenntir hafa að geyma.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta