Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. maí 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Gerum það sem virkar

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. maí 2018.
Miklar félags- og efnahagslegar framfarir hafa átt sér stað á Norðurlöndum á liðinni öld. Félagslegur hreyfanleiki þessara samfélaga hefur verið mikill meðal annars vegna góðs aðgengis að menntun og heilbrigðisþjónustu óháð efnahagslegri stöðu. Samanlagt mynda Norðurlöndin tólfta stærsta efnahagskerfi veraldar og framtíðarhorfurnar eru góðar. Menntamálaráðherrar Norðurlandanna funduðu nýverið um þau tækifæri og áskoranir sem eru framundan í menntamálum. Fundurinn var lærdómsríkur en það vakti sérstaka athygli mína hvernig Noregur hefur annars vegar náð að fjölga nýskráðum kennaranemum og hins vegar hversu hátt hlutfall grunnskólanema innritast í verk-, iðn-, starfs- og tækninám þar í landi. Þetta eru einmitt tvær stórar áskoranir sem íslenskt samfélag glímir við og þarf að takast á við.

Umtalsverður kennaraskortur blasir við á Íslandi ef ekki verður ráðist í róttækar aðgerðir. Þessa dagana er unnið að tillögum sem miða að því að bæta þessa stöðu. Þær snúa til dæmis að launuðu starfsnámi, námsstyrkjum, markvissri leiðsögn fyrir starfsnema og nýliða ásamt þjóðarsátt um starfskjör kennara og skólastjórnenda. Í Noregi hefur svipuð staða verið uppi en hins vegar eru jákvæð teikn á lofti þar í landi. Í ár hefur umsóknum í grunnskólakennaranám fjölgað um 25% og um 15% í leikskólakennaranám. Þessi árangur hefur náðst með mikilli samvinnu milli kennara og menntamálayfirvalda. Þess má geta að kennaranámið í Noregi var nýverið lengt í fimm ár, samt sem áður er aukin aðsókn í það.

Aðsókn á Íslandi í verk-, iðn-, starfs- og tækninám endurspeglar ekki eftirspurnina eftir slíkri menntun á vinnumarkaðnum. Ákveðin verkþekking getur glatast ef ekki verður farið í markvissar aðgerðir á næstu árum. Staðreyndin er sú að mun færri eru í starfsnámi á Íslandi eða um 32 prósent meðan þetta hlutfall er um 50 prósent í Noregi og öðrum ríkjum í Evrópu. Íslenskt starfsmenntakerfi er öflugt en það hefur skort hvatningu til að sækja námið, þrátt fyrir góðar atvinnuhorfur og tekjumöguleika.

Við erum að vinna að því að einfalda aðgengi að náminu, auka skilvirkni þess og lækka kostnað nemenda við að sækja námið. Atvinnulífið er fullt af tækifærum fyrir einstaklinga með þessa menntun. Betur má ef duga skal í þessum efnum. Allar þjóðir sem vilja vera leiðandi eru að fjárfesta í fjölbreyttri menntun, rannsóknum og þróun til að takast á við þær áskoranir sem felast í tæknibyltingunni. Við Íslendingar stöndum á ákveðnum tímamótum í menntamálum og þurfum að auka samstöðu og samvinnu til að ná árangri. Við verðum í auknum mæli að horfa til ríkja sem ná árangri og leita lausna sem eru raunhæfar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta