Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. maí 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

„Af djörfung og alvöru“

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2018.

„Listin að lifa, hin erfiðasta, nauðsynlegasta og æðsta list allra lista, er framar öllu listin að hugsa, að hugsa frjálslega, af einlægni, djörfung og alvöru. “

Svo orti Sigurður Nordal og bendir á með skýrum hætti hvernig listin og lífið eru samofin og hversu mikilvæg menningin er okkur mannfólkinu. Menningarstarfsemi er í senn aðdráttarafl, sameiningarafl og farvegur fyrir sköpun sem nærir og auðgar þá fjölmörgu sem skapa og þá sem njóta.

Aðgengi að menningu óháð búsetu er lykilatriði. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er hlutverk stjórnvalda skilgreint á þann veg að þeirra sé að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs. Á því sviði hafa nýverið verið stigin mikilvæg skref því á dögunum var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu menningarhúss í Skagafirði og í byrjun þessarar viku endurnýjaði Akureyrarbær menningarsamning sinn við mennta- og menningarmálaráðuneyti. Á döfunni er einnig að ganga frá samkomulagi um menningarhús á Fljótsdalshéraði.

Þessar leiðir stjórnvalda til þess að styðja við menningarstarf í landinu hafa sannað sig í gegnum árin. Stefnu um uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni má rekja til ársins 1999 og fyrsti menningarsamningurinn milli ríkis og sveitarfélaga var gerður árið 1996. Segja má að ákvarðanir á þessum sviðum beri síðan ávöxt á hverjum degi því aðstaða og fagleg umgjörð um menningarstarf er nauðsynleg þegar tryggja á aðgengi almennings að menningarstarfsemi.

Á ferðum mínum um landið undanfarið hef ég orðið enn sannfærðari um mikilvægi þess að byggja upp og treysta þessa innviði. Það styður ekki aðeins við skapandi greinar heldur skapar það einnig ný sóknarfæri í ferðaþjónustu. Samhliða auknum straumi ferðamanna til Íslands hefur orðið vitundarvakning um þau tækifæri sem felast í að gera menningu og þekkingu okkar aðgengilegri. Það að tengja ferðamennsku við sögu, menningu og þekkingu á frjóan hátt mun ekki aðeins gleðja erlenda gesti, heldur einnig gera börnunum okkar kleift að kynnast landinu sínu á nýjan og fræðandi hátt.

Sem mennta- og menningarmálaráðherra lít ég björtum augum til framtíðar vitandi af þeim mikla krafti sem býr í menningarlífi landsins. Við ætlum að halda áfram að skapa hagfelld skilyrði fyrir þá fjölbreyttu og skapandi flóru. Og nú þegar líður að ferðasumri hvet ég landsmenn einnig til þess að sækja heim, njóta og hugsa af djörfung til að upplifa menningu vítt og breitt um landið sitt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta