Til hamingju útskriftarnemar!
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 5. júní 2018.
Undanfarið hafa framhaldsskólar víða um land útskrifað nemendur af hinum ýmsu námsbrautum. Útskriftardagurinn er gleðidagur sem staðfestir farsæl verklok á námi sem unnið hefur verið að með þrautseigju og dugnaði. Það er fátt eins gefandi og það að hafa lagt á sig við nám og uppskorið eftir því. Sú þekking og reynsla sem nemendur hafa viðað að sér á skólagöngunni verður ekki tekin af þeim. Þetta er fjárfesting sem hver og einn mun búa að alla ævi.
Tímamót sem þessi opna líka nýja og spennandi kafla, blása okkur byr í seglin til þess að setja ný markmið og ná enn lengra á lífsins leið. Foreldrar fyllast stolti og kennararnir líka, þeir eiga sitt í árangri og sigrum nemendanna.
Á dögum sem þessum verður mér hugsað til baka. Sem barn hafði ég mikið dálæti á bíómyndinni um ofurhetjuna Súperman. Leikarinn Christopher Reeve fór með aðalhlutverkið og sveif skikkjuklæddur yfir New York borg, tilbúinn að bjarga deginum. Það væri ekki frásögu færandi nema að árum síðar útskrifaðist ég úr meistaranámi frá Columbia-háskóla í New York og hátíðarræðuna þá hélt sjálfur Christopher Reeve. Hann mætti á sviðið í hjólastól, þar sem hann hafði lamast í hestaslysi nokkrum árum áður. Ræða hans var mjög áhrifamikil og ég man hana enn því boðskapurinn er mér dýrmætur.
Í fyrsta lagi, fjallaði hann um mikilvægi þess að nýta þau tækifæri sem lífið býður upp á og gera alltaf það besta úr þeirri stöðu sem við erum í. Í öðru lagi, lagði hann áherslu á að sýna þakklæti og samkennd gagnvart ástvinum okkar, kennurum og þeim sem við hittum á lífsins leið. Í þriðja lagi talaði hann um þrautseigjuna og hvernig hún er oft forsenda þess að við getum náð árangri.
Ég hugsa oft til þessara orða hans. Eftir slysið varð Reeve ötull talsmaður fólks með mænuskaða og hafði mikil áhrif sem slíkur. Mér finnst hugvekja hans alltaf eiga við. Hún er hvatning til allra, og sér í lagi þeirra glæsilegu útskriftarnema sem munu takast á við nýjar áskoranir að afloknu námi í framhaldsskóla. Þeir hefja næstu vegferð vel nestaðir af þekkingu, reynslu og vináttu sem hefur áunnist í framhaldsskólum landsins.
Ég óska öllum útskriftarnemum hjartanlega til hamingju með þennan áfanga. Megi framhaldið verða gæfuríkt hvert sem ferðinni kann að vera er heitið. Framtíðin er full af tækifærum.