Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. júní 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Jákvæð þróun í íþróttamálum

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 23. júní 2018.
Nú fylgist þjóðin með heimsmeistaramótinu í Rússlandi og fylkir sér á bak við landsliðið sitt. Á sama tíma eru þúsundir fjölskyldna að undirbúa sig fyrir fótboltamót barna sinna í sumar og hjá mörgum ríkir sérstök eftirvænting. Það fer mikil vinna og alúð í að skipuleggja mót sem þessi, og oft er sú vinna unnin í sjálfboðastarfi. Öllum þeim frábæru sjálfboðaliðum og mótshöldurum verður seint fullþakkað fyrir að gera upplifun þátttakenda sem besta.

Gott aðgengi og jafnrétti eru að mínu mati lykilbreytur þegar kemur að árangri í íþróttum. Með tilkomu frístundakorta og fjölgun iðkenda hafa fleiri börn tækifæri til þess að spreyta sig í mismunandi íþróttagreinum. Stúlkum sem stunda íþróttir hefur fjölgað verulega að undanförnu og er það mjög jákvæð þróun. Ég tel að sú fjölgun hafi einnig aukið til muna virkni foreldra í íþróttastarfi, sem hefur afar jákvæð áhrif á árangur og stemningu í kringum íþróttaþátttökuna.

Í grein í ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla er fjallað um niðurstöður rannsóknar á kynjajafnrétti í íþróttum. Þar kemur fram að stjórnvöld hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að tryggja kynjajafnrétti en ekki hafi verið horft til kynjasjónarmiða við undirbúning gildandi íþróttalaga. Ennfremur að stefnumótun í málaflokknum hafi ekki tekið mið af þeim og stjórnvöld ekki lagt þau til grundvallar í fjárveitingum sínum til íþróttahreyfingarinnar.

Rannsóknir sem þessar eru mikilvægar opinberri stefnumótun. Ég fagna þeim og tel brýnt að gera grein fyrir þeirri vinnu sem þegar er hafin til umbóta á þessu sviði. Aðgerðum kynjaðrar fjárlagagerðar er beitt við úthlutun fjármagns til íþróttamála. Í fjármálaáætlun 2019-2023 eru kyngreindir mælikvarðar með markmiðum um að auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, ásamt markmiði um að efla stuðning við afreksíþróttafólk. Íþróttastefnan er í endurskoðun og þar er lögð áhersla á að jafna tækifæri og þátttöku kynjanna. Þá er unnið að því að fjölga konum í stjórnum íþróttafélaga en hlutfall þeirra nú er 36%. Jafnréttisstofu hefur einnig verið falið að kalla eftir jafnréttisáætlunum íþróttafélaga og aðstoða við gerð þeirra. Verið er að gera úttekt á íþróttakennslu í skólum með það að markmiði að skoða áhrif hennar á jafnrétti og einnig verður að nefna að KSÍ steig mjög mikilvægt skref í byrjun árs þegar árangurstengdar greiðslur A-landsliða karla og kvenna voru jafnaðar.

Þessi skref sem stjórnvöld og íþróttahreyfingin stíga skipta miklu. Við vitum að það má gera betur á sumum sviðum þegar rætt er um jafnrétti og íþróttir en stefna okkar er skýr og við erum á réttri vegferð. Árangur Íslands í íþróttamálum vekur athygli út fyrir landsteinana og við höfum þar mörgu að miðla.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta