Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. júlí 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Jákvæð teikn á lofti í menntamálum

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2018.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á menntamál og uppbyggingu á því sviði. Þar hefur margt áunnist og við erum þegar farin að sjá vísbendingar um árangur ýmissa verkefna sem hrundið var af stað í vetur.

Iðn- og verknám
Fyrst má nefna það markmið okkar að efla iðn-, starfs- og verknám. Þar er stefna okkar að styrkja utanumhald með verk- og starfsþjálfun nemenda og einfalda aðgengi þeirra að náminu. Niðurfelling efnisgjalda var skref í þá átt. Mikilvægt er einnig að kynna betur þá náms- og starfskosti sem eru í boði. Sú vinna fer einkar vel af stað og sem dæmi hefur innrituðum nemendum á verk- og starfsnámsbrautum framhaldsskóla fjölgað um 33% frá fyrra ári. Kostir verk- og starfsmenntunar eru ótvíræðir og mikil eftirspurn er eftir fólki með slíka menntun á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þessi þróun er því mjög ánægjuleg.

Kennarastarfið
Annað brýnt verkefni okkar er styrkja alla umgjörð í kringum kennara og auka nýliðun í stéttinni. Við tókum í vor við tillögum um aðgerðir þar að lútandi. Verið er að kostnaðarmeta þær þessa dagana og ráðgert að í haust muni liggja fyrir tímasett aðgerðaáætlun um nýliðun kennara á öllum skólastigum. Í því samhengi er gleðilegt að fá fréttir um aukna aðsókn í kennaranám, bæði í Háskólanum á Akureyri, þar sem aukningin er 53% í grunnnám í kennaradeild, og við Háskóla Íslands, þar sem umsóknum um grunnskólakennaranám fjölgaði um 6% og leikskólakennaranám um 60%. Við höfum unnið ötullega í góðu samstarfi við hagaðila að því að kynna kennaranámið og það er að skila árangri.

Brotthvarf
Aðgerðir gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum er þriðja stóra verkefnið sem ég vil tæpa á hér. Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur að stöðuskýrslu í sérstöku brotthvarfsverkefni þar sem verið er að greina gögn og koma með tillögur að áherslum sem nýta má til frekari stefnumótunar. Reiknað er með að hún verði tilbúin um miðjan júlí. Niðurstöður útreikninga á árlegu nýnemabrotthvarfi sýna að það hefur minnkað miðað við gögn síðustu þriggja ára og er það vel. Fjölmargar aðgerðir hafa þegar verið settar af stað til að sporna við brotthvarfi, m.a. aukin framlög til framhaldsskólastigsins, betri kortlagning á brotthvarfsvandanum og verkefni er tengist eflingu geðheilbrigðisþjónustu.

Það eru því ýmis jákvæð teikn á lofti þegar við skoðum stöðuna í íslenskum menntamálum. Eitt það mikilvægasta tel ég þann áhuga og samvinnuvilja sem ég skynja á ferðum mínum og fundum – ég hef engan hitt enn sem ekki hefur skoðun á skóla- og menntamálum. Enda snerta menntamál okkur öll og ekki síst þegar horft er til þess samfélags sem við viljum skapa okkur til framtíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta