Barnamenningarsjóður Íslands
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 21. júlí 2018.
Menning geymir sjálfsmynd þjóðar og fléttar saman fortíð, nútíð og framtíð. Þannig eru listir og menning mikilvægir þættir í burðarvirki samfélagsins, afl sem bindur okkur saman. Á síðustu árum hefur átt sér stað vitundarvakning í verkefnum tengdum barnamenningu, meðal annars með tilkomu menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi. Þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu er einn af fjórum meginþáttum hennar, en þar kemur til að mynda fram að aðgengi að menningar- og listalífi er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi.
Við höfum séð jákvæð áhrif þess að auka aðgengi barna og ungmenna að listum og menningu, meðal annars í gegnum verkefnið List fyrir alla. Þar er lögð áhersla á að tryggja aðgang yngri kynslóðarinnar að menningu í hæsta gæðaflokki óháð búsetu og efnahag. Verkefnið hefur aukið fjölbreytni í skólastarfi og styrkt listfræðslu í skólum. Við viljum gera enn betur í því að styrkja vitund barna og ungmenna um menningararf okkar og auka læsi þeirra á menningu.
Það er því sérstaklega ánægjulegt að í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands hefur Alþingi samþykkt að stofnaður verði öflugur barnamenningarsjóður, Barnamenningarsjóður Íslands, sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár. Heildarframlög til sjóðsins verða hálfur milljarður á tímabilinu. Meginmarkmið hins nýja sjóðs er að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun. Þannig er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á að styrkja verkefni sem efla sköpunarkraft barna og ungmenna sem og hæfni þeirra til þess að verða þátttakendur í þeirri þróun sem nú á sér stað í aðdraganda hinnar svonefndu fjórðu iðnbyltingar. Sjóðurinn mun einnig leggja áherslu á verkefni sem efla samfélagsvitund í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Gott samfélag er barnvænt samfélag. Það var því vel til fundið að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafi sammælst um að leggja áherslu á menningarstarf barna og ungmenna í tilefni af fullveldisafmælinu. Börn og ungmenni munu móta íslenskt samfélag í framtíðinni – næstu 100 ár fullveldis Íslendinga eru þeirra. Hvetjum þau áfram og styðjum við menningarstarf þeirra.