Rannsóknir og vísindi eru hreyfiafl
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 10. ágúst 2018.
Hver er besta leiðin til þess að stuðla að framförum og uppbyggingu? Svarið er einfalt. Með menntun, áreiðanlegum upplýsingum og gögnum. Þar skipta rannsóknir og samvinna okkur lykilmáli. Að þekking geti ferðast og fái hafa áhrif til góðs.Alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna og vísinda er íslensku fræðasamfélagi afar dýrmætt. Í vikunni fengum við góða gesti þegar ráðherra mennta- og vísindamála Japana, hr. Toshiei Mizuochi, sótti Ísland heim. Aðalefni okkar fundar var aukið samstarf á sviði menntunar og rannsókna. Við ræddum meðal annars mikilvægi skiptináms og menningartengsla, jafnrétti og möguleika þess að koma á formlegum samstarfssamningi ríkjanna á sviði tækni og vísinda líkt og Norðmenn, Svíar og Danir hafa gert. Það er gaman að segja frá því að þegar eru í gildi 34 samstarfssamningar milli íslenskra háskóla og háskóla í Japan og hafa fræðimenn landanna birt liðlega 300 sameiginlegar vísindagreinar, m.a. á sviði jarðfræði, stærðfræði, erfðafræði og stjörnufræði.
Japanir sýna því áhuga að við aukum samstarf okkar á sviði rannsókna, vísinda og tækni, ekki síst er varðar norðurslóðir. Þau málefni eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu en einn mikilvægasti vettvangur slíks samstarfs er hjá Norðurskautsráðinu, þar sem Ísland mun taka við formennsku næsta vor en Japan er áheyrnarríki. Íslendingar leggja sérstaka áherslu á loftslagsmál, málefni hafsins og þátttöku og velferð íbúa á svæðunum á vettvangi ráðsins. Aukin alþjóðasamvinna á sviði rannsókna og vöktunar á norðurslóðum er okkur mjög mikilvæg svo stjórnvöld sem hlut eiga að málum geti brugðist sem best við þeim áskorunum sem blasa við þar.