Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. september 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Menntun er tækifæri fyrir alla

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 7. september 2018.
Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við viljum tryggja öllum börnum og ungmennum slík tækifæri og er það leiðarljósið við gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Markmiðið er einfalt; íslenskt menntakerfi á að vera framúrskarandi og byggja undir samkeppnishæfni hagkerfisins til langrar framtíðar. Liður í því er að halda áfram með þróa menntun fyrir alla eða menntun án aðgreiningar sem reynst hefur vel að mörgu leyti.

Íslenskir skólar mæta fjölbreyttum þörfum nemenda sinna og innan þeirra er unnið frábært starf. Við vitum hins vegar að hægt er að gera betur þegar kemur að samþættingu skólastiga. Þannig er raunin að fötluðum ungmennum sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðast fáir mennta- eða starfskostir að því námi loknu. Þessi staða var rædd á nýlegum fundi Þroskahjálpar með aðstandendum fatlaðra ungmenna á opinskáan og uppbyggilegan hátt og komu þar margar athyglisverðar hugmyndir fram.

Árið 2016 fullgiltu stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var það mikið framfaraskref. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skuli fötluðum mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra en í 24. grein hans er sérstaklega fjallað um menntun. Það er mikilvægt að við leitum allra færra leiða til að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist í þessum efnum.

Það er miður að útskrifuðum nemendum af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðist ekki fjölbreyttari atvinnu- eða menntatækifæri að námi loknu og að því munum við keppa. Þegar hefur verið hrint af stað vinnu á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem fram munu koma tillögur til úrbóta um aðgengi fatlaðs fólks að námi og/eða störfum að loknum framhaldsskóla. Mikilvægt verður að stilla saman strengi þeirra sem að þurfa að spila saman í þessum efnum m.a. með velferðarráðuneytinu, sveitarfélögum sem og öðrum hagsmunaaðilum. Ljóst er að bætt yfirsýn, upplýsingagjöf og aukin áhersla á samstarf og samfellu í skóla- og velferðarmálum mun hjálpa okkur að mæta þeim áskorunum sem að bíða okkar og stuðla að betra samfélagi og tækifærum fyrir okkur öll.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta