Efling iðnnáms á Íslandi
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 26. september 2018.
Það er frábært að heimsækja íslenska framhaldsskóla. Á ferðum mínum undanfarna mánuði hef ég komið inn í ófáa slíka og hitt þar metnaðarfullt skólafólk og öfluga nemendur. Þar er unnið geysilega fjölbreytt og mikilvægt uppbyggingarstarf alla daga. Framhaldsskólastigið er brúin milli bernskunnar og fullorðinsáranna bæði hvað varðar nám og þroska.
Á fjárlögum þessa árs kom inn umtalsverð hækkun framlaga til framhaldsskólanna, alls um 1,2 milljarðar kr. og í nýju frumvarpi til fjárlaga ársins 2019 sést að sú fjárveiting til skólanna mun halda sér á næsta ári. Heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins eru áætluð tæpir 33 milljarðar kr. á næsta ári en þar undir er rekstur á yfir 30 skólum út um allt land. Í þessum skólum eru um 18.000 nemendur. Auknir fjármunir sem runnið hafa til skólanna að undanförnu gera þeim kleift að efla sitt skólastarf enn frekar, meðal annars með því að bæta námsframboð, styrkja stoðþjónustu og endurnýja búnað og kennslutæki.
Forgangsröðun í verki
Fjárlagafrumvarp næsta árs ber þess merki að ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu verk-, iðn-, og starfsnáms. Við viljum að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu starfsnámi, ekki síður en bóknámi, sem uppfyllir kröfur næsta skólastigs og atvinnulífsins. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 224 milljóna kr. hækkun til reksturs framhaldsskóla og er lögð sérstök áhersla á að hækka verð reikniflokka starfs- og verknáms. Einnig eru framlög tryggð til að efla kennsluinnviði fyrir verk- og starfsnám, t.d. bætta verknámsaðstöðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla. Enn fremur er unnið að þróun rafrænna ferilbóka fyrir nemendur í starfnámi og einföldun í skipulagi námsins.
Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur dregur einnig úr líkum á brotthvarfi. Umfangsmikil verkefni sem við vinnum að á framhaldsskólastiginu eru meðal annars að sporna gegn brotthvarfi, stuðla að bættri líðan nemenda og styðja betur við nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku.
Á réttri leið
Á undanförnum mánuðum höfum við séð jákvæð teikn á lofti í menntamálum. Nemendum sem innritast á ákveðnar verk- eða starfsnámsbrautir framhaldsskóla fjölgaði umtalsvert í haust, eða hlutfallslega um 33% á milli ára. Við viljum halda áfram á þessari vegferð og sækja fram fyrir allt menntakerfið okkar. Það mun skila sér í ánægðri nemendum og samkeppnishæfara hagkerfi.