Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. nóvember 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Áfram íslenska

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Fréttablaðinu 19. nóvember 2018.
Á degi íslenskrar tungu sl. föstudag kynnti ég vitundarvakningu um mikilvægi íslenskunnar. Sú ber yfirskriftina Áfram íslenska! og er ætlað að minna á að þróun og framtíð tungumálsins er á ábyrgð okkar allra. Vitundarvakning þessi er liður í fjölþættum aðgerðum stjórnvalda til stuðnings íslenskri tungu og fyrsta aðgerðin sem tilgreind er í þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Þingsályktunin var samþykkt í ríkisstjórn í liðinni viku og verður brátt lögð fram á Alþingi.

Að undanförnu höfum við kynnt ýmsar aðgerðir til stuðnings íslenskunni sem meðal annars tengjast útgáfu bóka á íslensku, einkareknum fjölmiðlum og máltækni. Með þingsályktunartillögunni, og þeim 22 aðgerðum sem þar eru tilgreindar, er markmiðið að ná enn þá betur utan um það stóra og viðvarandi verkefni stjórnvalda að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Sérstaða þjóðtungunnar, gildi hennar og fjölbreytni er sá grunnur sem vitundarvakningin okkar byggir á.

Tíu aðgerðir í þingsályktunartillögunni tengjast íslensku menntakerfi með beinum hætti, t.d. aðgerð sem tengist því að efla skólabókasöfn og vinna áfram að bættu læsi. Íslendingum af erlendum uppruna og erlendum ríkisborgurum sem hér búa hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Við vitum að nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku vegnar verr í íslensku skólakerfi og eru líklegri til að hverfa frá námi. Því er brýnt að auðvelda aðfluttum Íslendingum, á öllum aldri, að ná tökum á íslensku máli. Jákvæð umræða og fræðsla í samfélaginu um fjölbreytileika íslenskunnar er sérstaklega mikilvæg fyrir nýja málnotendur og eyða þarf fordómum og auka þolinmæði gagnvart íslensku með erlendum einkennum. Það verður mikilvægur liður í vitundarvakningunni.

Íslenskan er lifandi samskiptatæki og okkar sjálfsagða mál. Vitundarvakning af þessu tagi þarf að eiga sér stað sem víðast í samfélaginu og því verður á næstunni leitað eftir víðtæku samstarfi um hana, m.a. við stofnanir, atvinnulíf og félagasamtök. Við getum öll tekið virkan þátt í því að þróa íslenskuna, móta hana og nýta hana á skapandi hátt. Framtíð íslenskunnar er í okkar höndum – og á okkar vörum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta