Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. nóvember 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Menntamál eru atvinnumál

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2018.
Í nýlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku efnahagslífi er vísað til þess að efnahagsstefna landsins þurfi að miða að því að efla viðnámsþrótt hagkerfisins. Þar kemur fram að efnahagur heimila, fyrirtækja og efnahagsreikningur hins opinbera hafi styrkst mikið á undanförnum árum en þar sem hagkerfið sé lítið og því næmt fyrir áföllum sé nauðsynlegt að verja það fyrir hagsveiflum. Því sé mikilvægt að ríkið móti stefnu sem eykur vaxtarmöguleika íslensks hagkerfis og styðji við samkeppnishæfni landsins.

Stefna stjórnvalda í menntamálum stuðlar að þessu og það styður Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í úttekt sinni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að öflugt menntakerfi sé meginforsenda framfara og kjarninn í nýsköpun þjóðarinnar til framtíðar. Örar tækniframfarir í atvinnulífinu krefjast þess að menntakerfið okkar geti tekist á við breytingar. Íslenskt samfélag er kjörið til þess að fást við slíkar áskoranir, þar sem tæknibreytingar gagnast oft fámennum samfélögum þar sem tæknin hefur verið nýtt til að einfalda og auka skilvirkni mannaflsfrekra atvinnugreina. Til þess að nýta tækniframfarir verður þekkingargrunnurinn að vera öflugur og tilbúinn að takast á við breytta tíma. Samkvæmt tölum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (e. OECD) hefur alþjóðleg samanburðarhæfni íslenska menntakerfisins minnkað frá því að mælingar á henni hófust árið 2000 en á undanförnum árum hefur ýmissa leiða verið leitað til þess að snúa þeirri þróun við. Það má meðal annars sjá í auknum framlögum og fjárfestingu á sviði menntamála.

Við boðuðum stórsókn í menntamálum og samþykkt fjármálaáætlun næstu ára ber þess skýr merki. Þegar eru uppi vísbendingar um að aðgerðir okkar á sviði menntamála, m.a. til að fjölga nemendum í iðn- og kennaranámi, séu að skila árangri. Við viljum stefna að hugverkadrifnum hagvexti og minnka vægi þess útflutnings sem er háður auðlindum. Með því fæst meira jafnvægi í þjóðarbúskapinn og minni líkur eru á sveiflum í efnahagslífinu. Til þess að stuðla að slíku jafnvægi og umhverfi þar sem nýsköpun dafnar og verkvit þróast er mikilvægt að við fjárfestum í menntakerfinu og stuðlum að virku samstarfi þess við atvinnulífið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta