Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. janúar 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Störf kennara í öndvegi

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 02. janúar 2019.

Samkeppnishæfni þjóða mun á næstu áratugum ráðast af hæfni og færni fólksins þeirra. Sú hæfni og færni ræðst ekki síst af gæðum menntakerfa í viðkomandi landi. Kennarar bera uppi menntakerfin og eru því lykilaðilar í mótun samfélaga til framtíðar. Alþjóðavæðing og örar tæknibreytingar gera enn ríkari kröfu á að stjórnmálin forgangsraði í þágu menntunar.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum en þar er lögð rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við kennaraskorti með samstarfi ríkis, sveitar- og stéttarfélaga.

Staðan í dag er sú að við þurfum að stórauka aðsókn í kennaranám, þar sem háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að mæta þörfum fyrir nýliðun, sér í lagi á leik- og grunnskólastigi.

Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum unnið að því að mæta þessari áskorun. Tillögur voru kynntar ríkisstjórn fyrir jólin og vonir standa til að stjórnvöld geti kynnt eftirfarandi úrbætur á nýju ári og hrint þeim í framkvæmd: Í fyrsta lagi að starfsnám á vettvangi, þ.e. fimmta ár í M.Ed í leik- og grunnskólafræðum, verði launað. Í öðru lagi að efla leiðsögn nýliða í starfi á öllum skólastigum. Í þriðja lagi að Lánasjóði íslenskra námsmanna verði beitt til að fjölga kennurum en norsk stjórnvöld hafa meðal annars farið þessa leið. Í fjórða lagi að lög um menntun og ráðningu kennara verði endurskoðuð og að lokum að útskrifuðum kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn verði fjölgað. Allar þessar tillögur að úrbótum eru mikilvæg skref til að efla starfsumhverfi kennara á Íslandi. Þetta er þó einungis upphaf þeirrar vegferðar sem framundan er hjá þjóðinni. Afar brýnt er að það verði þjóðarsátt um starfskjör kennara og skólastjórnenda. Það er forsenda þess að Ísland verði með framúrskarandi menntakerfi.

Á þessu rúma ári sem ég hef gegnt embætti mennta- og menningarmálaráðherra hefur það orðið æ skýrara í mínum huga að ef við sem samfélag ætlum að vera í fremstu röð er varðar lífsgæði þjóða þurfi ríki og sveitarfélög að vinna ötullega að því að efla starfsumhverfi kennara. Á árinu sem leið sáum við jákvæða þróun í fjölgun þeirra sem sóttu um í kennaranám sem er ánægjulegt. Við þurfum hins vegar að gera miklu betur og ég er sannfærð um að ofangreindar tillögur muni skila okkur á betri stað. Tökum höndum saman um það verkefni og mótum framtíðina til hagsbóta fyrir alla.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta