Áhersla á hæfni í menntakerfinu
Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og það kerfi er borið uppi af kennurum. Grunnurinn að öllum störfum í samfélaginu er lagður af kennurum og því er starf þeirra sérstaklega mikilvægt vegna þessa. Í stjórnarsáttmálanum er boðuð stórsókn í menntamálum og mikilvægur liður í henni er að bæta starfsumhverfi kennara og stuðla að nýliðun. Kennarafrumvarpið, ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda, er leið að því markmiði en frumvarpsdrög þess eru nú aðgengileg í Samráðsgátt stjórnvalda.
Með kennarafrumvarpinu er ráðgert að lögfesta ákvæði um hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Áhersla á hæfni er orðin sífellt viðameiri hluti stefnumörkunar í menntamálum og hafa kennarar og kennaramenntunarstofnanir meðal annars kallað eftir slíkri áherslu. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir skilyrðum um sérhæfða hæfni til kennslu fyrir hvert skólastig í stað núgildandi laga þar sem inntak og umfang menntunar kennara og skólastjórnenda er skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Að auki er tillaga um að framvegis verði gefið út eitt leyfisbréf til kennslu hér á landi í stað þriggja.
Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref í þá átt að tryggja betur réttindi og starfsöryggi kennara óháð skólastigum. Með þeim mun sveigjanleiki aukast og þekking flæða í meira mæli á milli skólastiga en áður. Við teljum að frumvarpið muni stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og auka faglegt sjálfstæði þeirra sem og styrkja stöðu kennara í íslensku samfélagi og innan skólakerfisins. Frumvarpið er einn liður af mörgum í heildstæðri nálgun stjórnvalda til að efla menntun á Íslandi. Á morgun, fimmtudag, verða kynntar sértækar aðgerðir sem snúa að því efla kennaranám og fjölga kennaranemum.
Mig langar að þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt sitt að mörkum í þeirri umfangsmiklu vinnu sem að baki býr þessum frumvarpsdrögum en undirbúningur hefur staðið yfir frá því sl. haust. Frumvarpið var unnið í samráði við helstu félagasamtök íslenskra kennara, Samband íslenskra sveitarfélaga og kennaramenntunarstofnanir.