Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. mars 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Mjög góð fjárfesting

Frá kynningarfundi vegna aðgerða sem miða að fjölgum kennara í vor.  - mynd
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2019.

Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess stuðla að viðurkenningu á störfum kennara og efla faglegt sjálfstæði þeirra. Einnig er þar áréttað til að bregðast megi við yfirvofandi skorti á kennurum hér á landi þurfi ríki, sveitarfélög og stéttarfélög að vinna vel saman.

Ef ekkert er að gert blasir grafalvarleg staða við okkur. Ef miðað er við óhagstæðustu sviðsmynd mannfjöldaþróunar og óbreyttan fjölda útskrifaðra grunnskólakennara gera spár okkar ráð fyrir að manna þurfi tæplega 1200 kennarastöður í grunnskólum með starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár, 2023. Þá yrði hlutfall starfsfólks starfandi við kennslu án kennsluréttinda 25% en samsvarandi hlutfall var 8,6% árið 2017. Ljóst er að þegar vantar leikskólakennara í um 1800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara.

Í gær kynnti ég fyrstu skrefin sem við hyggjumst stíga í þá átt að auka nýliðun í kennarastétt. Þær tillögur byggja á vinnu starfshóps sem skipaður var um það verkefni en í honum áttu sæti fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Háskólanum á Akureyri, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, samtakanna Heimilis og skóla og Samtökum iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Um er að ræða þrjár sértækar aðgerðir sem allar koma til framkvæmda næsta haust.

Launað starfsnám
Fyrst ber að nefna að leik- og grunnskólakennaranemum á lokaári meistaranáms býðst frá og með næsta hausti launað starfsnám. Markmið þessa er að stuðla að því að nemar sem komnir eru af stað í M.Ed. nám klári nám sitt á tilsettum tíma og að þeir skili sér til kennslu að námi loknu. Lagt er upp með að innan starfsnámsins verði gætt að því að nemar hafi svigrúm til að vinna að lokaverkefni sínu. Með þessari aðgerð er einnig stefnt að auknu flæði þekkingar milli háskóla annars vegar og leik- og grunnskóla hins vegar. Um er að ræða átaksverkefni sem verður endurmetið reglulega með það að leiðarljósi að efla kennaranám enn frekar.

Styrkur til kennaranema
Kennaranemar á lokaári í leik- og grunnskólafræðum geta sótt um styrk til þess að auðvelda þeim að sinna lokaverkefni sínu jafnhliða launuðu starfsnámi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti greiðir þann styrk sem hvata til þess að nemar klári nám sitt á tilsettum tíma. Styrkurinn nemur allt að 800.000 kr. og greiðist í tvennu lag. Fyrri greiðslan verður bundin við skil verkefnisáætlunar lokaverkefnis og sú seinni við skil á samþykktu lokaverkefni.

Fjölgum leiðsagnakennurum
Ljóst er að brotthvarf nýrra kennara úr starfi í skólum er töluvert og mest er hættan á því fyrstu þrjú ár þeirra í starfi. Til þess að mæta þeirri áskorun verður gert átak í því að fjölga leiðsagnakennurum í íslenskum skólum, en það eru starfandi kennarar sem hafa sérþekkingu á því að taka á móti og þjálfa nýja kennara til starfa. Boðið eru upp á 30 eininga nám fyrir starfandi kennara sem dreifist á þrjár annir, við bæði Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, þar sem kennarar geta bætt við sig sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun styrkja skólana til þess að fjölga slíkum kennurum og er markmiðið að eftir fimm ár verði 150 leiðsagnakennarar starfandi. Styrkurinn samsvarar innritunargjöldum í námið og verða forsendur hans meðal annars þær að skólastjóri styðji umsókn kennara í námið og hins vegar að tryggja þurfi jafna dreifingu þessara styrkja milli skóla og landshluta.

Framtíðin og fagmennskan
Þessar aðgerðir eru aðeins upphafið, fleiri eru til skoðunar í ráðuneytinu og snerta þær til dæmis hvernig styrkja megi nemendur í öðru kennaranámi, s.s. framhaldsskóla- og listkennaranámi og hvernig skapa megi fleiri hvata til þess að fjölga kennaranemum, til dæmis gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Annar mikilvægur liður í þessu stóra verkefni okkar að bæta menntakerfið og stuðla að bættu starfsumhverfi kennara er nýtt frumvarp sem nú er til umfjöllunar í Samráðsgátt stjórnvalda. Með því verður í fyrsta sinn lögfest ákvæði um hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að tryggja betur réttindi og starfsöryggi kennara óháð skólastigum. Frumvarpið eykur ábyrgð skólastjórnenda til þess að velja inn þá kennara sem búa yfir þeirri hæfni, þekkingu og reynslu sem þeir leitast eftir hverju sinni. Þannig er stuðlað að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra sem aftur verður til þess að efla skólaþróun og fjölga tækifærum fyrir skólafólk.

Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á. Ef við stefnum að því að eiga framúrskarandi vísindamenn, listamenn, frumkvöðla, blaðamenn, múrara, íþróttafólk, viðskiptafræðinga, stjórnmálafræðinga eða stýrimenn þurfum við að eiga góða kennara. Fagmennska kennaranna – elja, trú og ástríða er það sem stuðlar að framförum fyrir okkur öll.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta