Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. mars 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Kraftur samvinnunnar

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2019.

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna horfum við til þess sem áunnist hefur í jafnréttismálum, hér heima og erlendis, minnumst frumkvöðla og baráttukvenna og ræðum þau verkefni sem framundan eru. Eitt þeirra verkefna sem mér er einna hugstæðast nú er hvernig við getum, á breiðum samfélagslegum grundvelli, unnið úr þeim upplýsingum sem fram hafa komið gegnum #églíka-frásagnir ólíkra hópa af kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Brátt verður tekið til umfjöllunar á Alþingi nýtt frumvarp um starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfa en því mælti ég fyrir síðasta haust. Íþrótta- og æskulýðsstarf á að vera öruggur vettvangur fyrir iðkendur á öllum aldri og að því munum við keppa. Í kjölfar áhrifamikilla #églíka-yfirlýsinga íþróttakvenna í byrjun síðasta árs var stofnaður starfshópur á vegum ráðuneytisins með fulltrúum íþróttahreyfingarinnar, æskulýðsfélaga og íþróttakvenna til að gera tillögur til úrbóta. Frásagnirnar fjölluðu um margs konar tilvik, allt frá atvikum sem lúta að mismunun kynja til alvarlegs ofbeldis. Ein af lykiltillögum hópsins var að komið yrði á laggirnar starfi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs hér á landi.

Hlutverk samskiptaráðgjafans yrði einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að leiðbeina einstaklingum sem upplifað hafa kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi í skipulögðu starfi íþróttafélaga og æskulýðssamtaka. Þá yrði honum falið að aðstoða félög við að gera viðbragðsáætlanir til þess að hægt sé að bregðast sem best við slíkum atvikum. Einnig hefði ráðgjafinn einnig það hlutverk að fræða og miðla upplýsingum um málefnið.

Frumvarpið hefur þegar fengið jákvæð viðbrögð úr ýmsum áttum og bind ég vonir við að það fái góðan hljómgrunn í þinginu. Samfélagið er að ganga í gegnum ákveðna vitundarvakningu nú um stundir um málefni sem tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun. Þetta er aðeins ein aðgerð af mörgum sem nú eru í mótun eða að komast til framkvæmda í kjölfar  #églíka-byltinganna. Raunar mætti segja að við séum enn í byltingunni miðri. Staðan nú og eftirmálar #églíka verða þannig til umræðu á stórri alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík í haust og er hún liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta