Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Mikilvægir sendiherrar alla ævi

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2019.

Í ferð minni til Kína í vikunni var skrifað undir samning sem markar tímamót fyrir íslenska og kínverska námsmenn. Gildistaka hans felur í sér gagnkvæma viðurkenningu háskólanáms milli landanna og mun auðvelda til muna nemendaskipti milli íslenskra og kínverskra háskóla. Á fundi þar ræddi ég við samstarfsráðherra minn, Chen Baosheng menntamálaráðherra Kína, um mikilvægi menntasamstarfs landanna og þau sóknarfæri sem í þeim felast.

Íslenskt menntakerfi hefur margt fram að færa fyrir erlenda námsmenn sem sýnir sig meðal annars í fjölgun umsókna þeirra í íslenska háskóla. Rúmlega 30 kínverskir námsmenn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslendingar stunda nám í Kína á ári hverju. Íslenskir háskólar eiga þegar í margvíslegu samstarfi við kínverska háskóla og hefur Háskóli Íslands meðal annars gert samstarfssamninga um nemendaskipti við fimmtán háskóla í Kína. Kína hefur gert hliðstæða samninga um viðurkenningu prófgráða við rúmlega 50 önnur ríki, þar á meðal við hin Norðurlöndin og hafa þeir stuðlað að auknu aðgengi og flæði milli háskólastofnana þeirra. Fyrir fámenna þjóð er aðgengi að námi og viðurkenning á því sérstaklega mikilvægt. Námsframboð hér á landi er fjölbreytt en fyrir þau sem hyggjast ganga menntaveginn er heimurinn allur undir. Því er meðal annars að þakka að námsgráður hafa auknum mæli verið staðlaðar og samræmdrar milli landa.

Skiptinemar verða á sinn hátt sendiherrar þeirra ríkja þar sem þeir dvelja, þó dvölin sé ekki löng geta tengslin varað alla ævi. Dæmin sanna að skiptinám verður oft kveikja að mun dýpri og lengri samskiptum og það byggir brýr milli fólks og landa sem annars hefðu aldrei orðið til. Við sem þjóð búum að slíkum tengslum því með þeim ferðast þekking, skilningur og saga. Á því er síðan hægt að byggja fleira og stærra. Ég bind vonir við að gagnkvæm viðurkenning háskólanáms hvetji nemendur, bæði hér heima og í Kína, til að skoða þá kosti sem bjóðast í háskólum landanna. Það hafa orðið gríðarleg umskipti í kínversku samfélagi á undanförnum áratugum og þau hafa skapað fjöldamörg tækifæri fyrir aukna samvinnu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta