Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Vöxtur í alþjóðlegu menntasamstarfi

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 18. maí 2019.

Íslendingar hafa í gegnum aldirnar verið víðförlir, sótt sér menntun og leitað sóknarfæra víða. Dæmi um íslenska mennta- og listamenn sem öfluðu sér þekkingar erlendis eru Snorri Sturluson sem á 13. öld fór til Noregs og Svíþjóðar, Einar Jónsson myndhöggvari sem á 19. og 20. öldinni dvaldi í Kaupmannahöfn, Róm, Berlín og Ameríku og Gerður Helgadóttir, einnig myndhöggvari, sem nam við skóla í Flórens og París.
Það er jákvætt hversu margir velja að læra erlendis. Við eigum að hvetja ungt fólk til að afla sér þekkingar sem víðast og skapa því viðeigandi umgjörð sem gerir því það kleift. Í störfum mínum sem mennta- og menningarmálaráðherra legg ég mikla áherslu á að styrkja íslenskt menntakerfi, til dæmis með því að bæta starfsumhverfi kennara, en ekki síður að við horfum út í heim og ræktum góð samskipti við aðrar þjóðir á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála. Undanfarið hafa náðst ánægjulegir áfangar á þeirri vegferð sem fjölga tækifærum okkar erlendis.

Merkur áfangi í samskiptum við Kína
Í vikunni var í fyrsta sinn skrifað undir samning við Kína um aukið samstarf í menntamálum. Samningurinn markar tímamót fyrir bæði íslenska og kínverska námsmenn en hann stuðlar að gagnkvæmri viðurkenningu á námi milli landanna og eykur samstarf á háskólastiginu. Kína hefur gert hliðstæða samninga við rúmlega 50 önnur ríki, þar á meðal við hin norrænu löndin. Rúmlega 30 kínverskir námsmenn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslendingar stunda nám í Kína á ári hverju en íslenskir háskólar eiga þegar í margvíslegu samstarfi við kínverska háskóla.

Vægi utanríkisviðskipta í landsframleiðslu á Íslandi er umtalsvert, eins og hjá öðrum litlum opnum hagkerfum. Greiður aðgangur að erlendum mörkuðum er lykilatriði hvað varðar hagsæld og efnahagslegt öryggi til frambúðar. Mikilvægi Kína sem framtíðarvaxtarmarkaðar í þessu samhengi er verulegt. Margvísleg tækifæri felast í samskiptum við Kína og viðskipti milli landanna hafa aukist undanfarin ár. Þjónustuútflutningur til Kína hefur aukist um 201% en heildarþjónustuútflutningur Íslands um 46% frá árinu 2013. Ljóst er að fjölmörg tækifæri eru í samstarfi ríkjanna hvað varðar menntun, viðskipti, rannsóknir og nýsköpun.

Vísinda- og rannsóknasamstarf við Japan
Vilji er til þess að efla tengsl Íslands og Japans á sviði mennta- og vísindamála og var ákveðið á fund okkar Masahiko Shibayama, menntamálaráðherra Japans, nýverið að hefja vinnu við gerð rammasamkomulags um rannsókna- og vísindasamstarf íslenskra og japanskra háskóla. Að auki hafa löndin ákveðið að halda sameiginlega ráðherrafund vísindamálaráðherra um málefni norðurslóða árið 2020. Þess má geta að japanska er næstvinsælasta erlenda tungumálið sem kennt er í Háskóla Íslands en japönskudeildin hefur verið starfrækt síðan árið 2003. Einnig er mikill áhugi á menningu og sögu Japans við Háskóla Íslands.

Viðskipti við Japan hafa verið nokkuð stöðug en mikill áhugi er á vörum frá Íslandi. Þar má nefna sjávarútvegsafurðir, lambakjöt og snyrtivörur. Ljóst er að japanska hagkerfið er öflugt með stóran heimamarkað, sem hægt er að efla enn frekar á komandi árum.

Horft til Suður-Kóreu
Ísland og Suður-Kórea munu auka samstarf sitt í mennta-, vísinda- og þróunarmálum í framhaldi af fundi mínum með Kim Sang-Kon, menntamálaráðherra og varaforsætisráðherra Suður-Kóreu, árið 2018. Afrakstur þess fundar er í farvatninu en vinna við formlegt samkomulag milli ríkjanna um samvinnu í menntamálum er á lokametrunum. Mun það meðal annars ná til kennaramenntunar og tungumálanáms ásamt því að löndin hvetji til frekari nemendaskipta og samvinnu milli háskóla. Suður-Kórea hefur getið sér gott orð fyrir þróttmikið og öflugt menntakerfi og hagkerfi landsins er eitt það þróaðasta í heimi.

Aukum samstarf við Breta
Við leggjum áherslu á að efla samstarf við Bretland á sviði mennta- og vísindamála óháð niðurstöðu Brexit. Á fundi með Chris Skidmore, ráðherra háskóla-, nýsköpunar- og vísindamála Bretlands, nýverið ræddi ég möguleika á lækkun skólagjalda fyrir íslenska námsmenn í Bretlandi. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að jafnræði ríki meðal landa á evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að skólagjöldum í breska háskóla eftir Brexit. Þetta myndi þýða mögulega lækkun á skólagjöldum fyrir íslenska námsmenn við breska háskóla en sem stendur greiða íslenskir nemendur hærri skólagjöld við breska háskóla en námsmenn frá ríkjum Evrópusambandsins. Slíkt væri til þess fallið að auka tengsl landanna enn frekar og skapa frekari hvata fyrir íslenska námsmenn til að líta til Bretlands.


Jákvæð áhrif
Íslenska menntakerfið á í umfangsmiklu samstarfi við fjölmörg ríki í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og víðar. Okkur miðar vel áfram í að auka alþjóðlegt menntasamstarf og eru framangreind dæmi um aukið samstarf við ein stærstu hagkerfi veraldar gott dæmi um slíkt. Ég er sannfærð um að ávinningurinn fyrir íslenskt samfélag verði verulegur og muni hafa jákvæð áhrif á lífskjör Íslands til framtíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta