Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. júní 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

75 ára afmæli lýðveldisins

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Fréttablaðinu 17. júní 2019.

Við minnumst 75 ára afmælis íslenska lýðveldisins í dag. Þegar við hugsum til þess sem helst hefur mótað lýðveldið okkar og það sem skilgreinir okkur sem þjóð er ljóst að menningin, tungumálið og bókmenntirnar eru í lykilhlutverki. Í sjálfstæðisbaráttunni var þjóðtungan ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur okkar réttmætar. Tungumálið er þannig lykillinn að sjálfsmynd okkar og líkt og lýðræðið stendur íslenskan á ákveðnum tímamótum. Hvorugt ættum við að álíta sjálfsagðan hlut, hvorki þá né í dag.

Við getum horft til afmælisbarns dagsins, Jóns Sigurðssonar forseta, í því samhengi. Hann hafði djúpstæð áhrif á Íslandssöguna sem fræði- og stjórnmálamaður, og fræðistörfin mótuðu um margt orðræðuhans á vettvangi stjórnmálanna. Hann var óhræddur við að vera á öndverðri skoðun en samtímamenn sínir, hann beitti gagnrýninni hugsun – rökum og
staðreyndum, í sínum mikilvæga málflutningi. Það var raunsær hugsjónamaður sem kom okkur á braut sjálfstæðis. Gagnrýnin hugsun er að mínu mati það
sem einna helst mun stuðla að jákvæðri þróun þessara tveggja lykilþátta; lýðræðisins og tungumálsins.

Lýðræðið gerir okkur að frjálsum borgurum og veitir okkur tækifæri til virkrar þátttöku í mótun samfélagsins. Að sama skapi hvílir á okkur mikil ábyrgð vegna þessa og það er skylda okkar að afla þekkingar á málefnum líðandi stundar til styrkja lýðræðið. Það sem helst vinnur gegn framförum hvers samfélags er áhuga- og afskiptaleysi. Virk þátttaka og rýni til gagns skila okkur mestum árangri, hvort sem verkefnin eru lítil eða risavaxin.

Sú staðreynd að við getum fjölmennt á samkomur víða um land til þess að fagna þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar er ekki sjálfgefin. Sú elja og þrautseigja sem forfeður okkar sýndu í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lagði grunninn að þeim stað sem við erum á í dag. Það er okkar og komandi kynslóða að halda áfram á þeim grunni. Ég óska okkur öllum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta