Veldisvöxtur í lestri
Það að lesa er sjálfsagður hlutur fyrir marga, fæstir hugsa nokkuð um það hversu mikið þeir lesa á degi hverjum. Fyrir unga lesendur skiptir það hins vegar lykilmáli hversu mikið, hversu oft og hvers konar efni þeir lesa. Nú er sumarið runnið upp, þá er tími útivistar, leikja og ferðalaga en á þeim tíma er sérstaklega mikilvægt að hjálpa unga fólkinu okkar að muna eftir lestrinum. Það er staðreynd að ef barn les ekkert yfir sumartímann getur orðið allt að þriggja mánaða afturför í lestrarfærni þess í fríinu. Hið jákvæða er að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færninni eða taki framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir slíka afturför dugar að lesa 4-5 bækur yfir sumarið, eða lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn. Í þessu samhengi má segja að hver mínúta skipti máli.
Samkvæmt breskri lestrarrannsókn skiptir yndislestur sköpum þegar kemur að orðaforða barna, en orðaforði er grundvallarþáttur lesskilnings og þar með alls annars náms. Rannsóknin leiddi í ljós að ef barn les í 15 mínútur á dag alla grunnskólagöngu sína kemst það í tæri við 1,5 milljónir orða. Ef barnið les hins vegar í um 30 mínútur á dag kemst það í tæri við 13,7 milljónir orða. Sá veldivöxtur gefur skýrar vísbendingar um hversu mikilvægur yndislestur er fyrir árangur nemenda.
En við lesum ekki lestrarins vegna heldur af áhuga. Því eru skemmtilegar bækur og hæfilega flóknir textar besta hvatningin sem getum fært ungum lesendum. Hver einasti texti er tækifæri, hvort sem hann er í bók, á blaði eða á skjá og sem betur fer eru ungir lesendur áhugasamir um allt mögulegt. Ég hvet alla til þess að vera vakandi fyrir áhugasviði ungra lesenda í sínum ranni og miðla fróðlegu, skemmtilegu og krefjandi lesefni áfram til þeirra með öllum mögulegum ráðum. Það er ekki bara gott og uppbyggilegt fyrir viðkomandi lesanda heldur okkur öll. Á bókasöfnum landsins má til að mynda finna spennandi og áhugavert efni fyrir alla aldurshópa. Forsenda þess að verða virkur þátttakandi í lýðræðisþjóðfélagi er góð lestrarfærni; að geta lesið, skrifað og gert grein fyrir skoðunum sínum. Því er það samfélagslegt verkefni okkar allra að bæta læsi og lestrarfærni á Íslandi, þar höfum við allt að vinna.